FRÉTT FYRIRTÆKI 06. DESEMBER 2024

Heildartekjur í viðskiptahagkerfinu, án fjármála- og vátryggingastarfsemi, jukust um rúmlega 426 milljarða króna árið 2023 og voru ríflega 6.835 milljarðar samanborið við 6.409 milljarða króna árið áður. Þetta var 6,7% hækkun frá fyrra ári og töluvert minni aukning en árið 2022 þegar mikill vöxtur í flestum greinum hagkerfisins skilaði 22% tekjuvexti eftir tímabil samdráttar á árum kórónuveirufaraldursins.

Heilt yfir einkenndist árið 2023 af umtalsverðum vexti í ferðaþjónustu, samdrætti í útflutningsgreinum og áframhaldandi vaxandi fjármagnskostnaði. Rekstrartekjur jukust í flestum af helstu atvinnugreinum landsins og var mest hækkun í ferðaþjónustu, bílasölu og byggingarstarfsemi. Í mörgum greinum var aukning tekna samt minni en hækkun verðlags á tímabilinu miðað við breytingu vísitölu neysluverðs (8,8%) auk þess sem samdráttur var í sjávarútvegi og álframleiðslu.

Afkoma fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu dróst saman um alls 28% og reyndist 536 milljarðar króna árið 2023 samanborið við 741 milljarð króna árið 2022. Ástæðan var einkum samdráttur í framleiðslu málma og taprekstur í tækni- og hugverkaiðnaði vegna neikvæðrar afkomu í lyfjaframleiðslu og breytinga á fjármagnsliðum en þar að auki hafði minnkun á óreglulegum tekjum og hlutdeildartekjum áhrif til samdráttar í afkomu. Líkt og fyrri ár var mestur hagnaður í fasteignastarfsemi en auk þess nær tvöfaldaðist hagnaður í ferðaþjónustu.

Rekstrargjöld jukust um 508 milljarða króna, eða 9%, og námu 6.149 milljörðum króna þar sem hlutfall launakostnaðar af rekstrargjöldum hækkaði úr 19,6% í 21,1%. Þá bar einnig á auknum fjármagnskostnaði hjá fyrirtækjum samfara hækkandi vaxtastigi en afkoma fjármagnsliða varð neikvæðari um 117 milljarða á árinu (úr -85 milljörðum króna í -202 milljarða króna). Þar með ríflega tvöfaldaðist hluti fjármagnsliða af heildartekjum úr 1,3% í 3,0%. Loks breyttist efnahagsstaða hagkerfisins lítið á milli ára.

Mikill vöxtur í ferðaþjónustu
Mest var aukning tekna í einkennandi greinum ferðaþjónustu en heildartekjur ferðaþjónustunnar námu tæplega 930 milljörðum króna sem var 21% aukning frá fyrra ári. Mikill vöxtur var í flestum undirgreinum ferðaþjónustunnar en mest áberandi var aukning tekna í farþegaflutningum með flugi (27%) og þjónustustarfsemi tengdri flutningum með flugi (26%), rekstri gististaða (26%) og hjá ferðaskrifstofum (17%). Þá var einnig tæplega 15% aukning í leigu á vélknúnum ökutækjum og 20% vöxtur í rekstri leigubíla. Tekjur veitingastaða jukust aðeins umfram verðbólgu eða um 11% á milli ára.

Samfara miklum tekjuvexti batnaði afkoma ferðaþjónustunnar mikið og nær tvöfaldaðist hagnaður greinarinnar árið 2023 úr 23,5 milljörðum króna í rúmlega 44 milljarða. Þar stóð einkum út úr nær fjórföldun hagnaðar í rekstri gististaða og 80% aukning hagnaðar hjá ferðaskrifstofum. Taprekstur upp á 4,1 milljarð króna var samt sem áður í farþegaflutningum með flugi. Hagnaður ársins 2023 var sá mesti í ferðaþjónustunni síðan árið 2016 auk þess sem tekjur greinarinnar að raunvirði (miðað við vísitölu neysluverðs) hækkuðu umfram fyrra hágildi sem náðist árið 2018. Samfara þessari góðu afkomu batnaði efnahagsstaða greinarinnar og jókst eigið fé um 26% þar sem eignir jukust um 17% en skuldir aðeins um 14%.

Samdráttur í útflutningsgreinum
Afkoma í framleiðslu málma dróst mikið saman árið 2023 og skilaði greinin naumlega hagnaði upp á 1,9 milljarða króna samanborið við 84 milljarða króna árið 2022. Tekjur í málmframleiðslu drógust saman um 19% og námu 357 milljörðum króna árið 2023 þar sem heimsmarkaðsverð á áli lækkaði töluvert eftir miklar hækkanir árið 2022 auk þess sem gengi krónunnar styrktist. Að sama skapi dróst virði birgða saman og eignir í heild sinni um 9%. Skuldir lækkuðu þó um 13% og voru eignir því fjármagnaðar að minna leyti með skuldum en árið áður.

Lítilsháttar samdráttur var í sjávarútvegi en heildartekjur greinarinnar drógust saman um tæplega 1% á árinu og námu 485 milljörðum króna (sé fiskeldi talið með reyndust tekjurnar vera 543 milljarðar króna og óbreyttar frá fyrra ári). Afkoma í sjávarútvegi og fiskeldi var engu að síður jákvæð um 79 milljarða króna og nær óbreytt á milli ára þar sem rekstrargjöld breyttust lítið en afkoma fjármagnsliða og hlutdeildartekna batnaði. Þá batnaði efnahagsstaðan nokkuð þar sem skuldir jukust aðeins um 10% á móti 14% aukningu eigna. Hagnaður í sjávarútvegi og fiskeldi var sá næstmesti meðal stærstu atvinnugreina í hagkerfinu. Afkoma batnaði einnig töluvert í matvælaframleiðslu þar sem hlutdeildartekjur jukust mikið á milli ára.

Tekjur í tækni- og hugverkaiðnaði jukust um 9% á milli ára og námu 678 milljörðum króna samanborið við 621 milljarð króna árið 2022. Mest bar á vexti í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum (34%), starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (19%) og lyfjaframleiðslu (19%). Afkoma í tækni- og hugverkaiðnaði versnaði hins vegar töluvert á milli ára og skilaði atvinnugreinahópurinn tæplega 23 milljarða króna tapi árið 2023. Tapið mátti einkum rekja til verri afkomu fjármagnsliða í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni og fjarskiptum ásamt auknum vöru- og hráefniskostnaði vegna aukinnar lyfjaframleiðslu og annarrar meðal- og hátækniframleiðslu.1

Mestur hagnaður í fasteignastarfsemi
Líkt og árið 2022 var mestur hagnaður í fasteignastarfsemi eða 120 milljarðar króna sem þó var 4% minna en árið áður þegar hagnaðurinn reyndist 125 milljarðar króna.2 Alls jukust tekjur í greininni um 8% úr 277 milljörðum króna árið 2022 í 298 milljarð króna árið 2023. Samdráttinn í afkomu mátti helst skýra af auknum rekstrargjöldum sem jukust um 24% á milli ára en þar að auki höfðu óreglulegir liðir rúmlega helmingi minni áhrif á afkomuna en árið áður.

Töluvert meiri vöxtur var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en heildartekjur jukust þar um 15% og námu 685 milljörðum króna árið 2023. Þar af var 13% vöxtur í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna (416 milljarðar króna) og 18% vöxtur í sérhæfðri byggingarstarfsemi (237 milljarðar króna). Hagnaður í greininni var engu að síður óbreyttur í kringum 64 milljarða króna en rekstrargjöld hækkuðu um 17% á árinu þar sem afskriftir jukust um 44% úr 21 milljarði króna í 30 milljarða. Auk þess jukust bæði launakostnaður og vöru- og hráefnisgjöld töluvert eða um og yfir 18%. Almenn efnahagsstaða batnaði samt í byggingarstarfsemi en eigið fé og eignir jukust um 23% og 20% hvort fyrir sig á móti 18% aukningu skulda.

Mikill vöxtur í bílasölu
Tekjur í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum náðu nýjum hæðum á árinu 2023 og jukust alls um 14% úr 268 milljörðum króna árið 2022 í rúma 305 milljarða króna. Flestir kostnaðarliðir greinarinnar hækkuðu hins vegar töluvert á milli ára og leiddi það til minni afkomu en árið 2022. Hagnaður í greininni nam 9,6 milljörðum króna samanborið við 13 milljarða árið 2022 og var það 28% lækkun á milli ára. Alls hækkuðu rekstrargjöld um 16% þar sem helst bar á 17% hækkun vöru- og hráefnisgjalda og 75% aukningu fjármagnskostnaðar.

Minni vöxtur var í öðrum verslunargreinum og jukust tekjur aðeins um 4% í heildverslun og 1% í smásöluverslun. Afkoma í smásöluverslun batnaði hins vegar töluvert á milli ára og jókst um 13% þar sem vöru- og hráefniskostnaður minnkaði um 1%, hlutdeildartekjur jukust og afkoma fjármagnsliða batnaði. Gagnstæðra áhrifa gegndi hins vegar í heildverslun og dróst hagnaður þar saman um 8%. Þá hafði þessi litli vöxtur í báðum greinunum lítil áhrif á efnahagsstöðu þeirra sem hélst að mestu óbreytt frá 2022 til 2023.

Um gögnin
Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila sem telja um 37.000 aðila árið 2023 með ríflega 128 þúsund starfsmenn. Tölur fyrir árið 2023 eru bráðabirgðatölur og verða uppfærðar við næstu útgáfu. Gögnin innihalda eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.

Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé sérstaklega tekið fram. Verðbólga ársins 2023 var 8,8% miðað við ársmeðaltalsgildi vísitölu neysluverðs.

Fyrir tímanlegri upplýsingar gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launþega og fjölda launagreiðenda.

1 Til fjármagnsliða geta auk vaxtatekna og vaxtagjalda talist ýmsar gengisbreytingar á verðbréfum, söluhagnaður af hlutabréfum og hreinar tekjur af fjármálagerningum. Breytingar á einstaka fjármagnsliðum í ákveðnum greinum geta þannig haft töluverð áhrif á heildarniðurstöðuna jafnt til hækkunar sem lækkunar. Til dæmis var mikill söluhagnaður af hlutabréfum í fjarskiptum á árinu 2022 sem olli því að fjármagnsliðir í þeirri grein voru jákvæðir um tæpan 31 milljarð króna það ár en neikvæðir um 7,7 milljarða króna árið 2023.

2 Til fasteignaviðskipta teljast kaup og sala á eigin fasteignum, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga á landi og landréttindum, fasteignamiðlun og fasteignarekstur. Leigutekjur af atvinnuhúsnæði vega mest í heildartekjum atvinnugreinarinnar. Þá geta mats- og gangvirðisbreytingar fasteigna haft markverð áhrif á tekjur og afkomu rekstraraðila í greininni.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.