Afkoma fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu dróst saman um 5,3% árið 2024. Ástæðan var einkum dræmur tekjuvöxtur en heildartekjur rekstraraðila jukust um aðeins 137 milljarða króna eða tæplega 2,0% á árinu. Þetta var nokkuð minni vöxtur en árið 2023 þegar tekjur jukust um 8,2% þar sem mikill vöxtur í ferðaþjónustu, bílasölu og byggingarstarfsemi það árið vó á móti samdrætti í útflutningsgreinum og auknum fjármagnskostnaði.
Árið 2024 snerist þessi þróun hins vegar við þar sem afkoma í ferðaþjónustu dróst umtalsvert saman og tekjur í bílasölu minnkuðu mikið. Þá batnaði afkoma verulega í málmframleiðslu og tækni- og hugverkaiðnaði en dróst samt sem áður saman í sjávarútvegi. Afkoma af fjármagnsliðum batnaði nokkuð en almenn aukning rekstrargjalda umfram tekjuvöxt dró afkomuna niður.
Í flestum greinum hagkerfisins var aukning tekna minni en hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 5,8% á árinu 2024.
Lítil aukning tekna
Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist í flestum atvinnugreinum hagkerfisins árið 2024 var vöxturinn almennt lítill og aðeins 2,0% fyrir viðskiptahagkerfið í heild sinni. Af stærstu greinum landsins jukust tekjurnar mest í fasteignastarfsemi (14,7%) og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (11,0%) þar sem um 14% vöxtur var í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna. Þá var einnig 6,7% aukning í tækni- og hugverkaiðnaði þar sem einkum bar á 10,3% vexti í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni auk mikils vaxtar í framleiðslu á lyfjum.
Í öðrum greinum var tekjuvöxturinn lítill eða neikvæður þar sem helst stóð út úr 19,6% samdráttur í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum. Þá var einnig samdráttur í sjávarútvegi og fiskeldi um 8,7% (þar af 10,5% í sjávarútvegi) og lítils háttar minnkun tekna í framleiðslu málma (-1,6%).
Í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar jukust tekjur um 2,5% en þróunin var nokkuð misjöfn í ýmsum geirum greinarinnar. Þannig var 4,5% vöxtur í farþegaflutningum með flugi og 3,7% hjá ferðaskrifstofum en samdráttur í veitinga- og gistiþjónustu um 2,1% (þar af 4,0% hjá veitingastöðum).
Aukin rekstrargjöld en minni fjármagnskostnaður
Almennt jukust rekstrargjöld lítillega umfram tekjur fyrirtækja.1 Hlutfallslega jukust rekstrargjöld mest í fasteignastarfsemi, eða um 32,9%, þar sem vöru- og hráefniskostnaður ríflega tvöfaldaðist.2 Þá var einnig 11,7% aukning í byggingarstarfsemi sem þó var í samræmi við aukningu tekna. Í ferðaþjónustu jukust rekstrarútgjöld töluvert umfram tekjur eða um 5,7% samanborið við 2,5% tekjuvöxt þar sem fyrningar jukust um 13%. Í viðskiptahagkerfinu í heild jukust rekstrargjöld um 2,8% en þar af jókst vöru- og hráefnisnotkun um 2,5% og launakostnaður um 3,3%. Þá jókst annar rekstrarkostnaður um 3,7% og fyrningar um 1,2%.
Heilt yfir dróst kostnaður af fjármagnsliðum saman og nam hann tæplega 155 milljörðum króna fyrir viðskiptahagkerfið árið 2024 samanborið við 206 milljarða árið áður.3 Mest batnaði afkoma af fjármagnsliðum í tækni- og hugverkaiðnaði þar sem hún varð jákvæð um sjö milljarða króna eftir að hafa verið neikvæð um tæpan 21 milljarð árið 2023. Svipaða sögu var að segja í framleiðslu málma (sex milljarðar króna samanborið við níu milljarða samdrátt). Þá var einnig jákvæð þróun í smásölu- og heildverslun, fasteignastarfsemi og hjá veitum. Fjármagnskostnaður jókst hins vegar í byggingarstarfsemi, sjávarútvegi og sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum.
Minni hagnaður í flestum atvinnugreinum
Afkoma fyrirtækja dróst saman í flestum atvinnugreinum árið 2024. Hagnaður var þó í flestum geirum hagkerfisins en heilt yfir minnkaði hann um alls 5,3% hjá öllum fyrirtækjum (án fjármála- og vátryggingafyrirtækja). Af 10 stærstu atvinnugreinum hagkerfisins jókst hagnaður í aðeins fjórum greinum; veitustarfsemi, heildverslun, tækni- og hugverkaiðnaði og framleiðslu málma. Líkt og fyrri ár var mestur hagnaður í fasteignastarfsemi en hann var þó lítið breyttur á milli ára (-1,0%).4
Í öðrum greinum var samdráttur í afkomu þar sem einna helst má nefna um helmings minnkun hagnaðar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu auk mikillar minnkunar í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum (-70%). Í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar var einkum áberandi aukið tap í farþegaflutningum með flugi eða tæplega 13 milljarðar króna samanborið við fjóra milljarða árið 2023. Þá var einnig yfir 30% minni hagnaður hjá ferðaskrifstofum og í veitinga- og gistiþjónustu.
Birting á öðrum rekstrarupplýsingum
Samfara birtingu á rekstrar- og efnahagsyfirlitum hefur Hagstofa Íslands einnig uppfært aðrar rekstrarupplýsingar fyrir virk fyrirtæki fyrir árin 2008-2023 ásamt bráðabirgðatölum fyrir árið 2024. Gögn í þessum töflum innihalda valdar rekstrarstærðir fyrir virk fyrirtæki (t.d. framleiðsluverðmæti, vinnsluvirði, kostnað vegna almannatrygginga, o.fl.). Tölurnar eru í samræmi við birtingarskilyrði Eurostat og því að fullu samanburðarhæfar við önnur lönd. Gögnin má nálgast má í töflunum Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar eftir atvinnugreinum 2008-2024 og Fjöldi fyrirtækja og rekstrarupplýsingar eftir atvinnugreinum og stærð 2008-2024 á vef Hagstofunnar.
Um gögnin
Rekstrar- og efnahagsreikningar eru unnir úr skattframtölum rekstraraðila sem telja tæplega 38.000 aðila árið 2024 með ríflega 147 þúsund starfsmenn. Tölur fyrir árið 2024 eru bráðabirgðatölur og verða uppfærðar við næstu útgáfu. Gögnin innihalda eingöngu þá aðila sem skilað hafa skattframtali.
Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé sérstaklega tekið fram. Verðbólga ársins 2024 var 5,8% miðað við ársmeðaltalsgildi vísitölu neysluverðs.
Fyrir tímanlegri upplýsingar gefur Hagstofa Íslands einnig út tölur um virðisaukaskattskylda veltu eftir atvinnugreinum ásamt mánaðarlegum tölum um fjölda starfandi. Þá eru einnig gefnar út tölur um fjölda launþega og fjölda launagreiðenda.
1 Til rekstrargjalda teljast vöru- og hráefnisnotkun, launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og fyrningar
2 Til vöru- og hráefniskostnaðar fasteignafélaga telst einkum byggingarkostnaður (seldra eigna). Árið 2024 voru einnig umtalsverð áhrif af fasteignaviðskiptum með íbúðir í Grindavík vegna eldsumbrota undanfarinna ára.
3 Til fjármagnsliða geta auk vaxtatekna og vaxtagjalda talist ýmsar gengisbreytingar á verðbréfum, söluhagnaður af hlutabréfum og hreinar tekjur af fjármálagerningum. Breytingar á einstaka fjármagnsliðum í ákveðnum greinum geta þannig haft töluverð áhrif á heildarniðurstöðuna jafnt til hækkunar sem lækkunar.
4 Til fasteignaviðskipta (fasteignastarfsemi) teljast kaup og sala á eigin fasteignum, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga á landi og landréttindum, fasteignamiðlun og fasteignarekstur. Leigutekjur af atvinnuhúsnæði vega mest í heildartekjum atvinnugreinarinnar. Þá geta mats- og gangvirðisbreytingar fasteigna haft markverð áhrif á tekjur og afkomu rekstraraðila í greininni.