FRÉTT FYRIRTÆKI 18. NÓVEMBER 2016

Velta í viðskiptahagkerfinu, að undanskilinni lyfjaframleiðslu, fjármála- og vátryggingastarfsemi, var um 3.700 ma. kr. árið 2015 samanborið við 3.400 ma. kr. árið 2014 og hækkaði því um 6,8% á milli ára. Eigið fé jókst um rúmlega 16% frá 2014 og var í lok árs 2015 um 2.600 ma. kr. Arðgreiðslur 2015 námu rúmlega 93 mö. kr. sem er tæplega 8 ma. kr. aukning frá fyrra ári.

Eiginfjárhlutfall var um 42% í lok árs 2015 en það er um 4% aukning frá fyrra ári. Þetta hlutfall hefur hækkað að meðaltali um 4 prósentustig á ári síðan 2008, en í lok þess árs var það um 13% og árin þar á undan í kringum 30%.

Rekstrartekjur sjávarútvegsfyrirtækja voru 364 ma. kr. (aukning um 4,1% frá fyrra ári), fyrirtækja í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar 479 ma. kr. (13% aukning) og rekstrartekjur í framleiðslu málma 247 ma. kr. (7% aukning). Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var um 65 ma. kr. en samsvarandi hagnaður hjá ferðaþjónustugreinum var 40 ma. kr. og þar af um 17 ma. í farþegaflutningum með flugi.

Frá 2009 hefur launakostnaður ferðaþjónustugreina aukist um 51 ma. kr. á verðlagi 2015, sem er 100% aukning.  Á sama tíma hækkaði launakostnaður um 15% í smásöluverslun og 19% í málm­framleiðslu og sjávarútvegi.

Frá 2004 til 2015 hafa rekstrartekjur gististaða aukist um rúm­lega 42 ma. á verðlagi ársins 2015 eða ríflega þrefaldast.  Árið 2015 voru rekstrartekjurnar 61 ma. kr.  sem er 9.5 ma. kr. aukning á milli ára. Samhliða aukinni veltu hefur hagnaður í grein­inni aukist og var hagnaður fyrir fjármagnsliði tæplega 6 ma. kr. árið 2015, sem er aukning um tæplega 900 mkr. frá árinu áður.

Rekstur og efnahagur fyrirtækja 2015 — Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.