Hlutfall íslenskra fyrirtækja sem selja vörur eða þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp árið 2019 er 21% (430 af 2023 fyrirtækjum). Þetta er niðurstaða samevrópskrar rannsóknar Hagstofu Íslands á viðskiptum fyrirtækja í gegnum netið. Undanskilin frá heildarfjöldanum eru fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn og fyrirtæki í fjármálastarfsemi, landbúnaði, fiskveiðum, skógrækt, eða úrvinnslu hráefna úr jörðu.
Í niðurstöðum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, fyrir Evrópusambandsríkin 28 árið áður (2018) er meðahlutfall fyrirtækja sem selja vörur eða þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp 16%. Er hlutfallið hæst á Írlandi, eða 30%. Á Norðurlöndunum er hlutfallið 26% í Svíþjóð, 25% í Noregi og Danmörku, og 19% í Finlandi.
Sala fyrirtækja á vörum og þjónustu árið 2019 í gegnum vefsíður eða öpp á Íslandi var 6% af rekstrartekjum fyrirtækja, þar af var 68% í gegnum eigin vefsíður eða öpp og 32% í gegnum almennar sölusíður.
Árið 2018 greiddu 51% fyrirtækja (úr sömu rannsókn) fyrir auglýsingar á netinu. Hjá 73% þeirra var minna en þriðjungur af heildar birtingarkostnaði greiddur til erlendra aðila, hjá 14% fyrirtækja rann einn til tveir þriðjungar birtingarkostnaðar til erlendra aðila og hjá 13% fyrirtækja meira en tveir þriðjungar.