FRÉTT FYRIRTÆKI 21. JÚNÍ 2024

Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja, það er með 50 launamenn eða fleiri, þar sem stjórnarmenn voru fjórir eða fleiri, var 41,4% í tilfelli almennra hlutafélaga á árinu 2023 og 36,5% í einkahlutafélögum. Samsvarandi hlutfall var 41,8% og 38,3% á árinu 2022 og lækkar því hlutfall kvenna í stjórnarformum af þessu tagi lítillega á milli ára.

Í stjórnum stórra fyrirtækja með þrjá stjórnarmenn var hlutfall kvenna 35,9% fyrir almenn hlutafélög og 32,8% fyrir einkahlutafélög. Samsvarandi hlutfall var 38,3% og 33,6% á fyrra ári. Í stórum einkahlutafélögum með tvo stjórnarmenn var samsvarandi hlutfall 25,4% en var 21,0% árið 2022.

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hefur farið heldur hækkandi síðasta áratug en lækkar nú frá fyrra ári fyrir flest stjórnarform stórra félaga. Almennt má merkja að hlutfall kvenna í stjórnum félaga sé hærra bæði þegar stærð stjórna og stærð fyrirtækja er meiri heldur en minni. Þá er hlutfallið hærra í almennum hlutafélögum en í einkahlutafélögum.

Blandað kynjahlutfall í stjórn
Ef litið er til fyrirtækja sem hafa 50 launamenn eða fleiri hefur þeim félögum sem hafa blandaða samsetningu kynja í stjórn farið fjölgandi á síðustu árum. Árið 2010 var hlutfall þeirra félaga, þar sem stjórnarmenn voru ekki allir af sama kyni, eða sem höfðu hlutfall kvenna á meðal stjórnarmanna á bilinu 40%-60%, á bilinu 20% (einkahlutafélög með tveggja manna stjórnir) til 45% (almenn hlutafélög með þriggja manna stjórnir).

Á liðnu ári var sama hlutfall á bilinu 75,6% (einkahlutafélög með fjóra eða fleiri stjórnarmenn) til 87,2% (almenn hlutafélög með þrjá stjórnarmenn), mismunandi eftir rekstrarformi og stærð stjórnar, og helst í flestum tilvikum svipað frá fyrra ári. Einkahlutafélög með tveggja manna stjórnir skera sig þó úr þar sem hlutfall einkahlutafélaga þar sem stjórnarmenn voru ekki báðir af sama kyni var 47,5%, en hafði verið 42,0% á fyrra ári. Þetta hlutfall fór jafnt og þétt lækkandi frá 2018 þegar nærri helmingur félaga með yfir 50 launamenn og tvo stjórnarmenn var með stjórnarmenn sitt af hvoru kyni þar til 2021 þegar það var 34,2% og hafði þá ekki verið lægra síðan 2013. Þetta hlutfall hefur nú hækkað tvö ár í röð.

Árið 2010 voru sett lög þar sem kveðið er á um það að þegar stjórnarmenn eru þrír í félagi, þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skuli hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Þessi lög taka til almennra og opinberra hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnu- og sameignarfélaga. Í tilfelli einkahlutafélaga er jafnframt tiltekið að hvort kyn skuli eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórnarmenn eru tveir. Þessi lög tóku gildi í september árið 2013.

Stjórnarformenn og framkvæmdastjórar
Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra hækkar lítillega á milli ára (24,3%) og heldur því áfram hægfara aukningu allt frá 1999. Hlutfall kvenna í stöðu stjórnarformanna var 25,1% í lok árs 2023.

Einn einstaklingur skráður „kynsegin/annað“ í Þjóðskrá var framkvæmdastjóri fyrirtækis á árinu 2023. Einnig gegndi einn einstaklingur með skráninguna „kynsegin/annað“ bæði stjórnarsetu og stjórnarformennsku á árinu 2023 og er þetta í fyrsta sinn sem svo er.

Tölur um fjölda stjórnarmanna, stjórnarformanna og framkvæmdastjóra eru birtar eftir kyni og aldri, atvinnugrein og stærð fyrirtækis og tölur um stjórnarmenn eru auk þess birtar eftir rekstrarformi og stærð stjórnar. Kyn fer eftir skráningu kyns í Þjóðskrá Íslands. Fylgt er orðalagi sem ákveðið var í samráði við Samtökin '78. Frá síðustu birtingu hafa bæst við ítarlegri gögn um virkni fyrirtækja árið 2022 og hafa fyrri tölur verið uppfærðar með tilliti til þess.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.