FRÉTT FYRIRTÆKI 25. APRÍL 2023

Samkvæmt virðisaukaskattskýrslum hefur velta aukist í flestum atvinnugreinum undanfarið ár, þ.e. frá janúar-febrúar 2022 til sömu mánaða 2023. Í sumum atvinnugreinum var aukningin þó minni en hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 10% á þessu tímabili.

Velta í framleiðslu málma minnkaði á milli ára en í þeirri grein hafði velta aukist mikið á árunum 2021-2022.

Margar þjónustugreinar, s.s. ferðaþjónusta, eru að rétta úr kútnum eftir kórónuveirufaraldurinn og er velta þeirra mun hærri í janúar-febrúar 2023 en í fyrra. Í framleiðslugreinum og verslun voru áhrif faraldursins ekki eins mikil.

Aukningu veltu í byggingarstarfsemi um 39% má að einhverju leyti skýra með auknum umsvifum. Þannig fengu t.d. 13% fleiri einstaklingar laun í þessari atvinnugrein í janúar-febrúar 2023 en á sama tímabili ári fyrr.

Endurskoðun hagtalna
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Við birtingu fréttar 23.febrúar sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, að frátalinni veltu í landbúnaði og skógrækt, talin vera 1.151,9 milljarðar króna í nóvember-desember 2022 sem var 11,3% hækkun frá sama tímabili árið 2021. Nú hafa nýrri tölur borist og velta á þessu tímabili er talin hafa verið 1.157,1 milljarðar sem er 11,8% hækkun á milli ára. Fjallað er um endurskoðun birtra hagtalna í lýsigögnum. Einnig er birt töluleg samantekt á því hvernig nokkrir undirflokkar breytast við endurskoðun birtra hagtalna.

Aðrar hagtölur um svipað efni
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggjast á skattframtölum og gefa ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina. Einnig er gott að skoða tölur um veltu í víðara samhengi og tengja þær við tölur um vöruviðskipti, launagreiðslur o.fl.

Talnaefni
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu
Velta í öllum atvinnugreinum

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1260 , netfang fyrirtaekjatolfraedi@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.