Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum í júlí til ágúst árið 2023 jókst í flestum atvinnugreinum samanborið við sömu mánuði árið 2022. Nokkuð áberandi var aukning veltu innan neysluhagkerfisins, þá einkum í einkennandi greinum ferðaþjónustu (15%), völdum greinum í smásölu (10%) og sölu ökutækja (13%).
Velta í framleiðslu var heldur misjafnari þar sem samdráttur í álframleiðslu (-29%) dró heildina niður. Þá var mjög góður vöxtur í tölvutengdri þjónustu (18%), sérstaklega upplýsingatækni og hugbúnaðargerð. Litlar breytingar voru í sjávarútvegi (3%) en fiskeldi stóð þar upp úr með 20% vöxt. Verðbólga tímabilsins var 7,7% og miðast öll umfjöllun við gögn á verðlagi hvers árs (nafnverð) nema annað sé tekið fram.
Líkt og undanfarin misseri hélt ferðaþjónustan áfram að vaxa og jókst velta um 15% frá fyrra ári. Vísbendingar eru þó um að vöxturinn sé að ná jafnvægi eftir tímabil mikils viðsnúnings í kjölfar kórónuveirufaraldursins árin 2020 til 2021. Veltan á nýliðnu tímabili var engu að síður í hæstu hæðum og hefur samkvæmt virðisaukaskattskýrslum ekki mælst hærri að raunvirði frá upphafi. Í júlí-ágúst 2023 mældist hún tæplega 229 milljarðar króna og teygði sig þá ögn hærra en á sama tíma árið 2018 þegar hún reyndist tæplega 226 milljarðar (miðað við verðlag í júlí-ágúst 2023).
Óhætt er því að fullyrða að áhrif af faraldrinum séu að verða hverfandi í ferðaþjónustu og tímabil nýs vaxtar að hefjast. Af greinum tengdri ferðaþjónustu má nefna 18% veltuaukningu í rekstri gististaða, 15% hjá ferðaskrifstofum, 12% í veitingasölu og -þjónustu, 18% í leigu á bifreiðum og 11% í flugi.
Ágætur gangur var í smásöluverslun og jókst velta um 10% þar sem einkum stóð út úr 15% vöxtur hjá stórmörkuðum, matvöruverslunum og lyfjaverslunum. Minni vöxtur var þó í sérverslun, til dæmis 5% í sölu byggingarvara og 5% í sölu á fatnaði. Umtalsverð aukning var einnig í sölu á vélknúnum ökutækjum eða 13% miðað við sama tíma árið 2022.
Þá hélt velta í fasteignaviðskiptum og húsaleigu áfram að aukast, eða um 28%, og mældist 27,7 milljarðar króna. Aukninguna mátti að mestu rekja til hærri veltu í leigu atvinnuhúsnæðis en sú grein er jafnframt langsamlega stærst innan þessa atvinnugreinahóps. Aftur á móti var minni vöxtur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða 8%, og einungis 4% í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna.
Loks var árangur í framleiðslugreinum nokkuð misjafn en velta í framleiðslu málma (álframleiðslu) dróst saman um 29% á milli ára. Þetta var fimmti samdráttur veltu miðað við fyrra ár í röð og sá mesti síðan 2016 en álverð hefur lækkað umtalsvert á þessu ári eftir miklar hækkanir árið 2022. Aftur á móti var mun betri vöxtur í matvælaframleiðslu (13%) þar sem velta í kjötiðnaði jókst um alls 21% á milli ára.
Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið júlí-ágúst 2022 til júlí-ágúst 2023 var 7,7% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.
Við birtingu síðustu fréttar fyrir tímabilið maí-júní 2023 var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin vera 1.228,0 milljarðar króna (8,9% hækkun m.v. fyrra ár). Eftir endurskoðun er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.230,7 milljarðar króna (9,2% hækkun m.v. fyrra ár).
Talnaefni
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu
Velta í öllum atvinnugreinum