Velta hefur þróast með mismunandi hætti eftir atvinnugreinum síðastliðið ár, þ.e. frá maí-júní 2022 til sömu mánaða 2023, samkvæmt nýjustu virðisaukaskattskýrslum. Mestur samdráttur var í framleiðslu málma (-24%) og „fiskveiðum, fiskeldi og vinnslu sjávarafurða“ (-14%). Velta jókst hins vegar mikið í rekstri gististaða (+35%), sölu og viðhaldi vélknúinna ökutækja (+26%), byggingastarfsemi (+24%) og mörgum þjónustugreinum.

Allar tölur eru á nafnvirði. Meðaltal gengisvísitölu í maí-júní 2023 var 195,9 og var gengið 5,9% veikara en á sama tímabili 2022 þegar meðaltal gengisvísitölu var 185,0. Á sama tímabili hækkaði vísitala neysluverðs um 6,0%.

Endurskoðun hagtalna
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Við birtingu fréttar 23. júlí sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi talin vera 1.082,5 milljarðar króna í mars-apríl 2023 sem var 8,9% hækkun frá sama tímabili árið 2022. Nú hafa nýrri tölur borist og velta á þessu tímabili er talin hafa verið 1.084,2 milljarðar sem er 9,0% aukning á milli ára. Fjallað er um endurskoðun birtra hagtalna í lýsigögnum. Einnig er birt töluleg samantekt á því hvernig nokkrir undirflokkar breytast við endurskoðun birtra hagtalna.

Aðrar hagtölur um svipað efni
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggjast á skattframtölum og gefa ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina. Einnig er gott að skoða tölur um veltu í víðara samhengi og tengja þær við tölur um vöruviðskipti, launagreiðslur o.fl.

Talnaefni
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu
Velta í öllum atvinnugreinum