FRÉTT FYRIRTÆKI 21. FEBRÚAR 2024

Velta jókst töluvert í flestum atvinnugreinum árið 20231 samanborið við fyrra ár þar sem ferðaþjónustan varð um tíma stærsta atvinnugrein landsins og óx um yfir 20% ásamt fasteignaviðskiptum og byggingastarfsemi. Töluvert hægði þó á vexti ferðaþjónustunnar síðustu tvo mánuði ársins.

Velta í nóvember-desember 2023
Almennt hægði á vexti veltu í nóvember til desember 2023 samanborið við sömu mánuði árið 2022. Þannig minnkaði velta í helmingi atvinnugreina og jókst umfram verðbólgu (7,9%) í einungis fjórðungi þeirra. Mesta aukningin var í fasteignaviðskiptum, sölu á vélknúnum ökutækjum og byggingarstarfsemi. Mestur var samdráttur í framleiðslu málma, veitustarfsemi og greinum í tækni- og hugverkaiðnaði. Þá var velta í ferðaþjónustu óbreytt á milli ára eftir mikinn og samfelldan vöxt frá miðju ári 2021.

Velta í fasteignaviðskiptum hélt áfram að aukast eða um alls 21% og reyndist 27 milljarðar króna á tímabilinu.2 Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til aukinna leigutekna af atvinnuhúsnæði, bæði vegna hækkunar leigu og nýrra tekjulinda. Þá var einnig markverður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 11% á milli ára en sú hækkun stafaði einkum af 13% vexti í sérhæfðri byggingarstarfsemi (t.d. raf- og pípulagnir, múrhúðun, o.fl.). Minni aukning var í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna eða 8%.

Velta í ferðaþjónustu var nær óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Vöxturinn (0,1%) var því langt undir verðbólgu ársins. Velta jókst lítillega í flugi eða um 3% en 6% í rekstri gististaða og 8% í veitingasölu og -þjónustu. Aftur á móti dróst hún saman um 14% í bílaleigu, 10% í flutningi á landi og sjó og 2% hjá ferðaskrifstofum.

Lítill vöxtur var í framleiðslugreinum hagkerfisins þar sem lækkun álverðs átti áfram þátt í 16% lægri veltu í framleiðslu málma. Velta í framleiðslu málma hefur nú minnkað sjö skipti í röð. Þá var 7% samdráttur í tækni- og hugverkaiðnaði þar sem 6% samdráttur var í hátækniþjónustu og 15% í meðal- og hátækniframleiðslu. Velta var óbreytt í upplýsingatækni og fjarskiptum. Loks var tiltölulega lítill vöxtur í matvælaframleiðslu eða 5% og þar af 2% í kjötiðnaði en samdráttur var í sjávarútvegi og fiskeldi um 1% (þar af 4% samdráttur í sjávarútvegi).

Áfram var góður vöxtur í sölu, viðgerðum og viðhaldi vélknúinna ökutækja og nam velta tímabilsins 57 milljörðum króna sem var 14% hækkun miðað við sama tíma árið 2021. Hins vegar var lítill vöxtur í verslunargreinum og reyndar samdráttur í heildverslun um 1% þar sem helst var markverð 9% lækkun í heildverslun með timbur, byggingarefni og hreinlætistæki. Velta í smásölu jókst um 6% þar sem 11% vöxtur var hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum, 9% í lyfjaverslun og 6% í sölu á fatnaði en þar var einnig 10% samdráttur í veltu með járn- og byggingarvöru, málningu og gler í sérverslunum.

Heildarvelta fyrir árið 2023
Þegar árið í heild sinni er skoðað hækkaði velta í flestum geirum hagkerfisins. Af stærstu greinum atvinnulífsins var lækkun í einungis tveimur greinum; framleiðslu málma (-20%) og veitustarfsemi (-2%). Mest var hækkun í fasteignaviðskiptum, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Í helmingi atvinnugreina jókst velta umfram verðbólgu ársins sem var 8,8%.

Velta jókst um 28% í fasteignaviðskiptum á árinu og nam 146 milljörðum króna samanborið við 115 milljarða árið 2022. Aukninguna mátti rekja til vaxandi leigutekna af atvinnuhúsnæði en almennur hagvöxtur, fjölgun ferðamanna og aukin umsvif drifu stöðuga eftirspurn eftir verslunar- og atvinnuhúsnæði með tilsvarandi vexti í veltu auk þess sem stór hluti leigutekna hækkaði í takt við verðbólgu ársins. Þá var einnig 19% hækkun á milli ára í byggingarstarfsemi.

Velta jókst mikið í öllum einkennandi greinum ferðaþjónustunnar árið 2023. Heilt yfir var velta ársins 921 milljarður króna sem var 21% aukning frá árinu 2022 þegar veltan nam 759 milljörðum króna. Ferðaþjónustan, sem var orðin næst stærsta atvinnugrein landsins árið 2021, varð um tíma stærsta greinin á árinu 2023 þegar metvelta varð í greininni í júlí-ágúst (230 milljarðar króna). Velta ársins 2023 náði þar með sömu hæðum og fyrir kórónuveirufaraldurinn.

Lítið var um markverðan samdrátt í veltu á árinu. Velta í álframleiðslu minnkaði um 20% en heimsmarkaðsverð á áli lækkaði töluvert á árinu eftir miklar hækkanir árin 2021 og 2022. Þá dróst velta saman um 2% hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum. Velta í sjávarútvegi og fiskeldi var nær óbreytt á milli ára en í sjávarútveginum einum og sér dróst hún saman um 1% og var vegin upp af 9% vexti í fiskeldi. Tækni- og hugverkaiðnaður skilaði 5% veltuaukningu en þar var einkum hátækniþjónusta (tölvutengd þjónusta, hugbúnaðargerð og upplýsingatækni) sem dreif vöxtinn þar sem samdráttur varð í meðal- og hátækniframleiðslu.

Loks var góður gangur í sölu vélknúinna ökutækja og jókst veltan um 15% á árinu, úr 253 milljörðum árið 2022 í 291 milljarð króna, en þetta var þriðja árið í röð þar sem veltan jókst um meira en 10% á milli ára.

Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið nóvember-desember 2022 til nóvember-desember 2023 var 7,9% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs. Verðbólga ársins 2023 var 8,8% miðað við ársmeðaltal vísitölu neysluverðs.

Við birtingu síðustu fréttar í desember sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 1.190,1 milljarður króna (6,7 % hækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu september-október 2023. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.186,7 milljarðar króna (6,4% hækkun miðað við fyrra ár).

Tölur í landbúnaði fyrir fyrri hluta árs eru að jafnaði taldar með veltu í maí-júní og seinni hluta árs með veltu í nóvember-desember. Ekki eru birtar tölur fyrir nóvember-desember 2023 og árið 2023 í heild sinni fyrir landbúnaðargreinarnar „Ræktun nytjajurta og búfjárrækt, veiðar og tengd þjónustustarfsemi“ og „Skógrækt og skógarhögg“ þar sem tölur fyrir seinni helming árs 2023 liggja ekki fyrir. Þar af leiðandi er ekki birt tala í flokknum „Alls“ enda gæfi það villandi mynd af heildarveltu. Aftur á móti eru birtar tölur í flokknum „Alls, án landbúnaðar og skógræktar“.

1 Margir bændur skila virðisaukaskattskýrslu hálfsárslega og hafa lengri skilafrest en aðrir. Ekki eru komnar tölur um veltu í landbúnaði og skógrækt fyrir seinni helming árs 2023.
2 Til fasteignaviðskipta teljast kaup og sala rekstraraðila á eigin fasteignum, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga á landi og landréttindum, fasteignamiðlun og rekstur fasteigna. Leiga atvinnuhúsnæðis er langsamlega stærsti liður atvinnugreinarinnar. Leigutekjur fasteignafélaga eru jafnan verðtryggðar. Upplýsingar um atvinnugreinaflokkun má nálgast á vef Hagstofunnar.

Talnaefni
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu
Velta í öllum atvinnugreinum

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.