Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í september til október 2023 jókst í meirihluta atvinnugreina hagkerfisins samanborið við sömu mánuði árið 2022. Í sumum greinum var aukningin þó minni en hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 7,9% á tímabilinu. Mest jókst velta í fasteignaviðskiptum, upplýsingatækni og sölu á vélknúnum ökutækjum. Aftur á móti var samdráttur í framleiðslu málma og meðal- og hátækniframleiðslu.
Velta í fasteignaviðskiptum jókst um alls 37% eða tæplega 8 milljarða króna og reyndist 29 milljarðar á tímabilinu.1 Þetta var jafnframt mesta velta í greininni frá upphafi. Meginþorra hækkunarinnar mátti rekja til aukinna leigutekna af atvinnuhúsnæði en almennur hagvöxtur, fjölgun ferðamanna og aukin umsvif hafa drifið stöðuga eftirspurn eftir verslunar- og atvinnuhúsnæði bæði nú og á síðustu árum með tilsvarandi vexti í veltu. Þá var einnig markverður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 15% á milli ára með nokkuð jafnri dreifingu á milli byggingar íbúða- og atvinnuhúsnæðis (13%), mannvirkjagerðar (16%) og annarrar sérhæfðrar byggingastarfsemi (17%).
Ferðaþjónustan hélt áfram að vaxa og skilaði 17% meiri veltu í september til október 2023 miðað við fyrra ár eða 169 milljörðum króna samanborið við 145 milljarða. Af einkennandi greinum ferðaþjónustunnar var mest áberandi 39% aukning í veltu rekstrar gististaða en einnig var um 11% aukning í veitingasölu- og þjónustu, flugi og rekstri ferðaskrifstofa. Minni vöxtur var í leigu á ökutækjum eða einungis 3%.
Misjafn gangur var í framleiðslugreinum hagkerfisins. Velta í framleiðslu málma hélt áfram að minnka samhliða lægra heimsmarkaðsverði á áli og var hún 57 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 69 milljarða króna árið 2022. Þetta var 17% lækkun frá fyrra ári og jafnframt sjötta lækkunin í röð. Í tækni- og hugverkaiðnaði voru á heildina litlar breytingar en 24% samdráttur í meðal- og hátækniframleiðslu vó á móti góðum gangi í upplýsingatækni (23%) og hátækniþjónustu (12%) þar sem velta í tölvutengdri þjónustu, einkum í formi gagnavinnslu, hýsinga og þjónustustarfsemi, jókst um 36%. Í matvælaframleiðslu var aftur á móti 11% vöxtur og 13% í kjötiðnaði miðað við sama tíma árið áður.
Loks jókst velta mikið í sölu, viðgerðum og viðhaldi vélknúinna ökutækja eða um 21% en töluverður vöxtur hefur verið í bílasölu frá árinu 2020 þegar rafmagnsbifreiðar fengu undanþágu frá virðisaukaskatti en sú undanþága rennur nú út við áramót. Í öðrum verslunargreinum voru tiltölulega litlar breytingar miðað við verðbólgu en þó var áframhaldandi vöxtur hjá stórmörkuðum (13%) og lyfjaverslunum (11%). Svipaða sögu var svo að segja af sjávarútvegi þar sem velta jókst í heild sinni um 10% en þar af naut fiskeldi 39% veltuaukningar.
Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið september-október 2022 til september-október 2023 var 7,9% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.
Við birtingu síðustu fréttar í október sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi talin hafa verið 1.187,3 milljarðar króna (4,9% hækkun m.v. fyrra ár) á tímabilinu júlí-ágúst 2023. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.189,8 milljarðar króna (5,1% hækkun m.v. fyrra ár).
Enn fremur var velta fyrir árið 2022 talin vera 6.398,7 milljarðar króna en samkvæmt nýrri tölum er veltan talin hafa verið 6.421 milljarður króna. Þessi breyting er tilkomin vegna þess að virðisaukaskattsskýrslur hafa verið leiðréttar í samræmi við skattframtöl fyrir rekstrarárið 2022.
1 Til fasteignaviðskipta teljast kaup og sala rekstraraðila á eigin fasteignum, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga á landi og landréttindum, fasteignamiðlun og rekstur fasteigna. Leigutekjur fasteignafélaga eru jafnan verðtryggðar.
Talnaefni
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu
Velta í öllum atvinnugreinum