Velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi, fyrir utan ferðaskrifstofur og farþegaflutninga á vegum, var 533 milljarðar í janúar og febrúar, sem er 1,3% lækkun miðað við sama tímabil árið 2016. Veltan jókst um 3,6% á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður. Þar sem starfsemi tengd farþegaflutningum og ferðaskrifstofum var ekki virðisaukaskattskyld fyrr en í ársbyrjun 2016, verður að taka tillit til þess þegar velta ársins 2016 er borin saman við fyrri ár.
Velta í allri virðisaukaskattskyldri starfsemi nam 549 milljörðum króna í janúar og febrúar 2017. En það er lækkun um 1% frá sama tímabili 2016.
Aukning í greinum tengdum ferðaþjónustu
Velta jókst í flestum einkennandi greinum ferðaþjónustu, t.d. jókst velta í flokkinum „rekstur gististaða og veitingarekstur“ um 27% á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 miðað við síðustu tólf mánuði þar áður.
Í ársbyrjun 2016 tóku gildi breytingar á lögum um virðisaukaskatt, 50/1988, sem gerðu nokkrar atvinnugreinar virðisaukaskattskyldar sem áður voru undanþegnar. Þar ber helst að nefna farþegaflutninga aðra en áætlunarflutninga (undir bálki H) og þjónustu ferðaskrifstofa (undir bálki N). Þetta er að hluta til skýringin á mikilli aukningu á virðisaukaskattskyldri veltu í þessum greinum, en einnig hafa umsvif þessara atvinnugreina aukist mikið undanfarin ár.
Þar sem velta ferðaskrifstofa er tiltölulega nýorðin virðisaukaskattskyld er ekki enn hægt að bera saman tölur á ársgrundvelli, en velta í þeirri atvinnugrein var 31% hærri í janúar og febrúar 2017 en sömu mánuði árið áður.
Einnig jókst velta milli ára í greinunum „byggingastarfsemi, mannvirkjagerð námugreftri og vinnslu jarðefna“ (36%) og í „sölu og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum“ (17%). Telja má líklegt að hluti af þeim vexti gæti verið tilkominn vegna vaxtar í einkennandi greinum ferðaþjónustu.
Virðisaukaskattsvelta (milljarðar króna) | ||||||
Jan.-feb. 2016 | Jan.-feb. 2017 | Breyting, % | Mars 2015-feb. 2016 | Mars 2016-feb. 2017 | Breyting, % | |
Alls | 552 | 549 | -0,6 | 3.858 | 4.098 | |
Alls án ferðaskrifstofa og farþegaflutninga á vegum¹ | 540 | 533 | -1,3 | 3.839 | 3.975 | 3,6 |
A-01/A-02 Landbúnaður og skógrækt² | 49 | 51 | 4,2 | |||
A-03/C-102 Fiskveiðar, fiskeldi og vinnsla sjávarafurða | 54 | 30 | -43,5 | 388 | 325 | -16,2 |
C-24 Framleiðsla málma | 33 | 35 | 8,4 | 238 | 201 | -15,5 |
C Framleiðsla, án fiskvinnslu (C-102) og framleiðslu málma (C-24) | 59 | 65 | 11,1 | 458 | 471 | 2,9 |
D/E Veitustarfsemi | 27 | 28 | 1,3 | 168 | 163 | -2,9 |
F/B Byggingarstarfsemi, mannvirkjagerð, námugröftur og vinnsla hráefna úr jörðu | 30 | 37 | 24,7 | 213 | 288 | 35,7 |
G-45 Sala og viðhald vélknúinna ökutækja | 21 | 23 | 9,6 | 139 | 162 | 16,8 |
G-4617/G-46381 Heild- og umboðsverslun með fisk | 36 | 21 | -41,0 | 247 | 211 | -14,6 |
G-4671 Olíuverslun | 13 | 15 | 21,3 | 116 | 113 | -2,6 |
G-46 Önnur heild- og umboðsverslun | 47 | 49 | 4,0 | 323 | 343 | 6,5 |
G-47 Smásala | 59 | 62 | 4,0 | 402 | 432 | 7,5 |
H Flutningar og geymsla¹ | 56 | 56 | 0,2 | 390 | 429 | |
I Rekstur gististaða og veitingarekstur | 18 | 22 | 25,5 | 137 | 175 | 27,4 |
J Upplýsingar og fjarskipti | 30 | 29 | -3,6 | 181 | 194 | 7,6 |
N-79 Ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur¹ | 10 | 13 | 30,9 | 16 | 100 | |
Aðrar atvinnugreinar | 58 | 60 | 4,0 | 395 | 439 | 11,1 |
¹Í ársbyrjun 2016 tóku gildi breytingar á lögum um virðisaukaskatt, m.a. urðu hluti farþegaflutninga (bálkur H) og þjónusta ferðaskrifstofa virðisaukaskattsskyld. | ||||||
²Flestir bændur skila virðisaukaskatti hálfsárslega. Velta á tveggja mánaða tímabili gefur því ekki rétta mynd af þróun landbúnaðar. |
Í veftöflum Hagstofu er að finna meiri sundurliðun og tölur lengra aftur í tímann.
Minni velta í sjávarútvegi
Velta lækkaði milli ára í sjávarútvegi og heildverslun með fisk. Fyrstu tvo mánuði ársins var velta í sjávarútvegi 44% lægri en á sama tíma í fyrra. Lækkunina má skýra með nýafstöðnu verkfalli sjómanna.
Ef miðað er við heilt ár og nýjustu tölur, þá var velta í sjávarútvegi 16% lægri á tímabilinu mars 2016 til febrúar 2017 en síðustu tólf mánuði þar á undan. Á sama tíma lækkaði velta í heildverslun með fisk um 15%.
Endurskoðun hagtalna
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattskýrslum eru bráðabirgðatölur. Við birtingu fréttar í janúar var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi í nóvember og desember 2016 talin vera 694,0 milljarðar sem var 2,6% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015. Nú hafa nýrri tölur borist og velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi á þessu tímabili er talin vera 714,0 milljarðar sem er 2,9% hækkun milli ára. Fjallað er um endurskoðun hagtalna í lýsigögnum og tölulegar upplýsingar um breytingar á þegar birtum hagtölum eru í endurskoðun hagtalna.
Aðrar hagtölur
Hagstofa Íslands gefur árlega út rekstrar- og efnahagsyfirlit fyrirtækja eftir atvinnugreinum sem byggja á skattframtölum og gefa ítarlega mynd af stöðu einstakra atvinnugreina.
Talnaefni:
Ferðaþjónusta
Allar atvinnugreinar
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.isDeila
Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.