FRÉTT FYRIRTÆKI 30. APRÍL 2025

Velta jókst í flestum af helstu atvinnugreinum landsins í janúar og febrúar 2025 samanborið við sömu mánuði árið 2024. Mest var aukningin í framleiðslu málma, bílasölu og ferðaþjónustu. Aftur á móti dróst velta töluvert saman í tækni- og hugverkaiðnaði vegna samdráttar í lyfjaframleiðslu og starfsemi í tölvutengdri þjónustu. Í meirihluta atvinnugreina jókst velta umfram hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% á tímabilinu.

Töluverður vöxtur var í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar en velta tímabilsins nam ríflega 120 milljörðum króna sem var tæplega 10% aukning frá fyrra ári. Aukning var í öllum geirum greinarinnar þar sem einkum stóð upp úr rúmlega 45% veltuaukning hjá heilsulindum og 28% vöxtur í farþegaflutningum á landi. Þá jókst velta einnig um 11% í farþegaflutningum með flugi, 12% í bílaleigu og tæplega 7% hjá ferðaskrifstofum (þar af 11% í þjónustu tengdum ferðalögum erlendis og 6% í þjónustu tengdum ferðalögum innanlands). Loks var rúmlega 5% vöxtur í rekstri gististaða, 3% í veitingasölu- og þjónustu og tæplega 4% í farþegaflutningum á sjó, vötnum og ám.

Velta í fasteignastarfsemi jókst um 7% og reyndist 25 milljarðar á tímabilinu. Nokkuð jafn vöxtur var í flestum geirum greinarinnar en meginþorra veltunnar má jafnan rekja til leigutekna af atvinnuhúsnæði. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var aftur á móti nær enginn vöxtur og stóð veltan í stað við 87 milljarða króna. Tæplega 5% vöxtur var í sérhæfðri byggingarstarfsemi en samdráttur upp á rúmlega 3% í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna ásamt 6% minni veltu í mannvirkjagerð dró greinina í heild niður.

Velta í tækni- og hugverkaiðnaði dróst saman um rúmlega 11% og var heildarvelta atvinnugreinahópsins um 94 milljarðar króna í janúar og febrúar. Samdráttinn mátti einkum rekja til minni veltu í framleiðslu á lyfjum og efnum til lyfjagerðar en þar að auki dróst velta saman um tæplega 8% í tölvutengdri þjónustu, nánar tiltekið í starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (gagnavinnslu, hýsingu, o.fl.). Minni breytingar voru í öðrum minni greinum tækni- og hugverkaiðnaðar og jókst velta til dæmis um tæplega 5% í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni en dróst saman um nærri 9% í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum.

Áframhaldandi vöxtur var í framleiðslu málma og jókst velta þar um rúmlega 13% en heimsmarkaðsverð á áli var töluvert hærra á tímabilinu janúar til febrúar 2025 miðað við sömu mánuði árið 2024. Þá var gengi krónunnar einnig örlitlu lægra en fyrir ári auk þess sem útflutt magn jókst um tæplega 9% með tilheyrandi áhrifum á veltu tímabilsins. Í öðrum helstu útflutningsgreinum voru minni breytingar og var samanlögð velta í sjávarútvegi og fiskeldi nær óbreytt á milli ára. Tæplega 7% vöxtur var engu að síður í fiskeldi og mældist velta þar um 12 milljarðar króna.

Viðsnúningur var í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum eftir nokkuð langt tímabil samdráttar. Alls jókst velta í greininni um tæplega 13% í janúar og febrúar en þar af var rúmlega 17% vöxtur í bílasölu. Öðru máli gegndi um flestar aðrar verslunargreinar því velta í heildverslun stóð í stað á milli ára auk þess sem aðeins um 5% vöxtur var í smásöluverslun. Þannig var nærri 13% samdráttur í heildverslun með eldsneyti og 7% minni velta í heildverslun með timbur, byggingarefni og hreinlætistæki. Í smásöluverslun var tæplega 6% vöxtur hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum en samdráttur upp á 6% hjá byggingarvöruverslunum og 4% hjá sérverslunum með föt og skó. Í lyfjaverslun var aftur á móti ríflega 31% aukning í veltu.

Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið janúar-febrúar 2024 til janúar-febrúar 2025 var 4,4% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.

Við birtingu síðustu fréttar í febrúar sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 1.268,3 milljarðar króna (4,5% hækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu nóvember-desember 2024. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.266,5 milljarðar króna (4,4% hækkun miðað við fyrra ár).

Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 5281100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.