Misjafn gangur var í helstu atvinnugreinum landsins í júlí og ágúst 2024 samanborið við sömu mánuði árið 2023. Af 12 stærstu greinum hagkerfisins jókst velta mest í tækni- og hugverkaiðnaði, veitustarfsemi og byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Aftur á móti var mjög lítill vöxtur í ferðaþjónustu auk þess sem samdráttur var í sjávarútvegi og sölu á vélknúnum ökutækjum. Í mörgum greinum var aukning veltu minni en hækkun verðlags en vísitala neysluverðs hækkaði um 6,1% á tímabilinu.
Velta í ferðaþjónustu jókst einungis um rúmlega 1% að nafnvirði miðað við sama tíma árið 2023 og mældist 234 milljarðar króna. Almennt var lítill vöxtur eða samdráttur í öllum geirum ferðaþjónustu á tímabilinu nema í þjónustu hjá ferðaskrifstofum vegna ferðalaga erlendis þar sem velta jókst um tæplega 12%. Einungis 3% vöxtur var í farþegaflutningum með flugi, 2% í rekstri gististaða og 1% í þjónustu tengdum ferðalögum innanlands. Þá var samdráttur í bílaleigu (-7%), farþegaflutningum á sjó (-5%), farþegaflutningum á landi (-3%) og veitingasölu og -þjónustu (-1%).
Öðru máli gegndi um tækni- og hugverkaiðnað þar sem velta jókst um 16% á milli ára. Ástæðan var einkum mikill vöxtur í meðal- og hátækniframleiðslu en þar jókst velta um tæplega 43% sem einkum mátti rekja til aukinnar lyfjaframleiðslu og framleiðslu á tækjum og vörum til lækninga. Þá var einnig ágætur vöxtur í hugbúnaðargerð (13%) og hátækniþjónustu (10%). Áframhaldandi samdráttur var hins vegar í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum (-21%) og starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (gagnavinnsla, hýsing, o.fl.) (-26%).
Velta í fasteignastarfsemi jókst um tæplega 9% og reyndist 29 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig töluverð aukning í fasteignamiðlun. Þá var umtalsverður vöxtur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en velta í greininni jókst um alls 12% þar sem 19% vöxtur var í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna og tæplega 12% í sérhæfðri byggingarstarfsemi.
Misjöfn þróun var í helstu útflutningsgreinum hagkerfisins. Viðsnúningur var í framleiðslu málma þar sem velta jókst um 10% en heimsmarkaðsverð á áli var nokkuð hærra á tímabilinu júlí til ágúst 2024 miðað við sama tíma fyrir ári. Samdráttur var hins vegar í sjávarútvegi og fiskeldi um tæplega 1% þar sem velta í fiskeldi dróst saman um rúmlega 20%. Velta í sjávarútvegi (án fiskeldis) jókst hins vegar lítillega í júlí til ágúst eða um 2% sem þó var töluvert undir verðbólgu tímabilsins. Áframhaldandi raunsamdráttur var því í greininni.
Sala á vélknúnum ökutækjum hélt áfram að dragast saman eða um 27% (18% sé viðhald og viðgerðir ökutækja talin með). Þá var einnig lítill vöxtur í öðrum verslunargreinum. Í heildverslun jókst velta um 5% sem einkum mátti rekja til 16% vaxtar í heildverslun með járn- og lagnavörur en óbreytt velta var með eldsneytisvörur enda heimsmarkaðsverð á olíu og gengi krónu nær óbreytt á milli tímabila. Litlu meiri vöxtur var í smásöluverslun þar sem velta jókst nokkurn veginn í samræmi við verðbólgu eða um tæp 7%. Þar af var tæplega 7% vöxtur í veltu stórmarkaða og matvöruverslana, 5% hjá sérverslunum með fatnað og skó og 4% hjá byggingarvöruverslunum. Loks var rúmlega 12% veltuaukning í lyfjaverslun.
Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið júlí-ágúst 2023 til júlí-ágúst 2024 var 6,1% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.
Við birtingu síðustu fréttar í ágúst sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 1.232,3 milljarðar króna (0,13% lækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu maí-júní 2024. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.236,1 milljarður króna (0,2% hækkun miðað við fyrra ár).
Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu