Velta jókst lítillega í flestum atvinnugreinum landsins í júlí og ágúst 2025 samanborið við sömu mánuði árið 2024. Mest jókst velta í bílasölu og upplýsingatæknigreinum en þá var einnig markverður vöxtur í ákveðnum greinum ferðaþjónustunnar* og smásöluverslun, einkum matvöru- og lyfjaverslun. Samdráttur var í framleiðslu málma auk þess sem lítill vöxtur var í byggingarstarfsemi. Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,9% á tímabilinu og jókst velta umfram hækkun verðlags í um helmingi atvinnugreina.
Í einkennandi greinum ferðaþjónustu jókst velta mest hjá heilsulindum eða um 31%. Þá var einnig umtalsverður vöxtur í farþegaflutningum á sjó, vötnum og ám (15%), bílaleigu (12%) og rekstri gististaða (12%). Í veitingasölu- og þjónustu jókst velta um tæplega 8% auk þess sem tæplega 7% vöxtur var í farþegaflutningum á landi. Aftur á móti var nær óbreytt velta hjá ferðaskrifstofum (1%).
Velta í tækni- og hugverkaiðnaði (án lyfjaframleiðslu) var tæplega 98 milljarðar króna í júlí og ágúst sem var um 4% meira en á sama tíma árið 2024. Almennt var töluverður vöxtur í upplýsingatæknigreinum og jókst velta hlutfallslega mest í starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (gagnavinnslu, hýsingu, o.fl.) eða um tæplega 23%. Þar af var einnig tæplega 14% vöxtur í þjónustustarfsemi á sviði upplýsingatækni en ívið minni vöxtur var hins vegar í hugbúnaðargerð þar sem velta jókst aðeins um 3%. Í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum dróst velta saman um tæplega 11%.
Velta í fasteignastarfsemi jókst um tæplega 5% og reyndist um 31 milljarður á tímabilinu sem að mestu mátti rekja til aukinna leigutekna af atvinnuhúsnæði. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var aftur á móti lítill vöxtur eða tæplega 1% og var veltan um 117 milljarðar króna. Þar var um 6% samdráttur í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna en á móti þeirri lækkun vógu tæplega 6% vöxtur í sérhæfðri byggingarstarfsemi og 2 milljarða króna veltuaukning í mannvirkjagerð.
Velta í málmframleiðslu dróst töluvert saman á tímabilinu eða um ríflega 17%. Heimsmarkaðsverð á áli var samt hærra í júlí og ágúst miðað við fyrra ár en gengi krónunnar var umtalsvert sterkara auk þess sem útflutt magn dróst nokkuð saman. Í sjávarútvegi og fiskeldi var aftur á móti jákvæður vöxtur þar sem velta jókst um 5%. Þar af var tæplega 6% vöxtur í sjávarútvegi en í fiskeldi dróst velta hins vegar örlítið saman.
Velta í sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum jókst aftur umtalsvert eða um 21% og var þar af rúmlega 30% vöxtur í bílasölu. Í smásöluverslun var einnig ágætur vöxtur eða tæplega 6% þar sem velta jókst um 9% hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum og 31% í lyfjaverslun. Aftur á móti var rúmlega 6% samdráttur hjá byggingarvöruverslunum og 2% samdráttur hjá sérverslunum um fatnað og skó. Í heildverslun jókst velta um aðeins rúmlega 2% en þar var um 15% samdráttur í heildverslun með eldsneyti.
Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið júlí-ágúst 2024 til júlí-ágúst 2025 var 3,9% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.
Rannsókn stendur yfir á grunngögnum um framleiðslu á lyfjum og efnum til lyfjagerðar. Að svo stöddu er því ekki unnt að birta tölur fyrir þá atvinnugrein og atvinnugreinahópinn meðal- og hátækniframleiðsla. Þar að auki verða tölur fyrir tækni- og hugverkaiðnað og heildarveltu (alls og alls án landbúnaðar og skógræktar) birtar án veltu í lyfjaframleiðslu á meðan frekari skoðun á gögnunum fer fram. Þetta gildir um öll gögn frá núverandi tímabili aftur til ársins 2008.
Við birtingu síðustu fréttar í ágúst sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar og lyfjaframleiðslu) talin hafa verið 1.262,6 milljarðar króna (2,9% hækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu maí-júní 2025. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.263,6 milljarðar króna (3,0% hækkun miðað við fyrra ár).
*Takmörkuð gögn bárust frá aðilum í farþegaflutningum með flugi og hefur það því tímabundin neikvæð áhrif á birta veltu í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi fyrir tímabilið júlí-ágúst 2025.
Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu