FRÉTT FYRIRTÆKI 25. JÚNÍ 2024

Velta jókst í flestum atvinnugreinum hagkerfisins í mars til apríl 2024 samanborið við sömu mánuði árið 2023. Aukningin var hins vegar almennt lítil og umfram verðbólgu (6,4%) í einungis helmingi atvinnugreina. Þannig var jákvæður raunvöxtur í fjórum af 14 stærstu atvinnugreinum landsins; fasteignaviðskiptum, byggingarstarfsemi, upplýsingatækni og fjarskiptum og að minna leyti í ferðaþjónustu en nokkuð hefur hægt á vexti hennar undanfarið. Lítill vöxtur og lækkanir voru hins vegar í öðrum greinum en velta dróst mest saman í bílasölu, sjávarútvegi og álframleiðslu.

Velta í fasteignastarfsemi hélt áfram að aukast eða um 17% og reyndist vera 26 milljarðar króna á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til leigu atvinnuhúsnæðis en þó var einnig veruleg aukning í fasteignamiðlun. Þá var svipaður vöxtur í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð þar sem velta jókst um 14% á milli ára og nokkuð jafnt í flestum undirflokkum greinarinnar.

Velta í ferðaþjónustu jókst um 7% miðað við sama tíma árið 2023 og mældist um 129 milljarðar króna. Þrátt fyrir það var vöxturinn ójafn og borinn uppi af fáum greinum. Mest jókst velta í bílaleigu (15%) og farþegaflutningum með flugi (13%). Vöxtur hjá ferðaskrifstofum var í meðallagi eða um 8% en þar af var samdráttur upp á 3% í þjónustu tengdum ferðalögum innanlands. Lítill vöxtur var í öðrum geirum ferðaþjónustunnar, til dæmis aðeins 4% í veitingasölu og rekstri gististaða, og raunar töluverður samdráttur í sumum greinum eins og hjá baðstofum og gufuböðum (-18%) og í farþegaflutningum á sjó og landi (-12%). Heilt yfir dró því úr vexti ferðaþjónustunnar innanlands í mars til apríl.

Mjög dró úr veltu í helstu útflutningsgreinum landsins en verulegur samdráttur var í sjávarútvegi þar sem velta dróst saman um tæplega 20%. Ástæðuna má einkum rekja til minni afla en engar heimildir voru gefnar fyrir loðnuveiði á fyrsta ársfjórðungi 2024 sem svo aftur skýrði mikinn samdrátt í landsframleiðslu á fyrri hluta ársins. Þá hélt velta í álframleiðslu áfram að dragast saman, eða um 11%. Ólíkt síðastliðnum misserum var heimsmarkaðsverð á áli tiltölulega lítið breytt á milli tímabila auk þess sem gengi krónunnar var á svipuðu reiki og árið áður. Samdráttinn í veltu álfyrirtækja mátti því að meira leyti en áður rekja til minni magnsölu.

Misjafn vöxtur var í tæknigreinum en alls jókst velta um 5% í tækni- og hugverkaiðnaði. Líkt og áður voru það upplýsingatæknigreinar og tengd þjónusta sem skiluðu jákvæðum vexti en um 9% veltuaukning var í hátækni- og tölvutengdri þjónustu. Framleiðslugreinar tæknigeirans drógust hins vegar saman um 6%. Nokkuð markverð minnkun var á veltu í hugbúnaðargerð (-11%) sem nú hefur dregist saman þrjú tímabil í röð en mikill vöxtur hafði átt sér stað frá 2022 fram á fyrri hluta ársins 2023.

Sala á vélknúnum ökutækjum dróst mikið saman eða um 33% (25% sé viðhald og viðgerðir ökutækja talin með) en við áramót var afnumin undanþága rafmagnsbifreiða frá virðisaukaskatti með tilsvarandi verðhækkunum á rafbílum og samdrætti í eftirspurn. Í öðrum verslunargreinum voru tiltölulega litlar breytingar í veltu á milli ára og heilt yfir var samdráttur að raunvirði. Heildverslun óx um einungis 3% þar sem velta með eldsneyti var nær óbreytt. Smásöluverslun óx litlu betur eða um 4% þar sem velta jókst um 8% hjá stórmörkuðum og 10% í lyfjaverslun. Samdráttur var hjá byggingarvöruverslunum (-6%) og í sölu á fatnaði og skóm (-2%).

Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið mars-apríl 2023 til mars-apríl 2024 var 6,4% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs.

Við birtingu síðustu fréttar í febrúar sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 996,8 milljarðar króna (4,3% hækkun miðað við fyrra ár) á tímabilinu janúar-febrúar 2024. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 998,8 milljarðar króna (4,5% hækkun miðað við fyrra ár).

Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.