Velta jókst í flestum atvinnugreinum árið 20241 samanborið við fyrra ár. Framan af árinu var einkum áberandi vöxtur í fasteignastarfsemi, tæknigreinum og byggingarstarfsemi en lítill vöxtur eða samdráttur í ferðaþjónustu, útflutningsgreinum og bílasölu. Síðustu tvo mánuði ársins var þó nokkur viðsnúningur og jókst velta töluvert í framleiðslu málma og ákveðnum greinum ferðaþjónustu á meðan samdráttur varð í byggingarstarfsemi og mörgum greinum tækni- og hugverkaiðnaðar.
Velta í nóvember-desember 2024
Á tímabilinu nóvember til desember 2024 jókst velta í flestum atvinnugreinum samanborið við sömu mánuði árið 2023. Almennt var vöxturinn þó tiltölulega lítill og undir verðbólgu miðað við vísitölu neysluverðs (4,8%) í meirihluta greina. Mest jókst velta í veitustarfsemi, málmframleiðslu og fasteignastarfsemi. Samdráttur var aftur á móti í bílasölu, upplýsingatækni og fjarskiptum, byggingarstarfsemi, heildverslun og sjávarútvegi.
Velta í fasteignastarfsemi jókst töluvert eða um alls 16% og reyndist 31 milljarður á tímabilinu. Meginþorra hækkunarinnar mátti líkt og áður rekja til aukinna leigutekna af atvinnuhúsnæði en almennt var einnig aukning í öðrum geirum greinarinnar. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var aftur á móti tæplega 4% samdráttur þar sem velta dróst saman um tæplega 3% í byggingu húsnæðis og þróun byggingarverkefna, 3% í sérhæfðri byggingarstarfsemi og tæplega 16% í mannvirkjagerð en velta í þeim hluta byggingarstarfsemi er almennt lítil.
Velta í ferðaþjónustu jókst um 7% og nam tæplega 137 milljörðum króna. Aukning var í nær öllum einkennandi greinum ferðaþjónustunnar þar sem einkum stóð upp úr ríflega 55% veltuaukning hjá heilsulindum og markverður vöxtur í farþegaflutningum. Þannig jókst velta um 31% í farþegaflutningum á sjó, vötnum og ám, 12% á landi og 10% með flugi. Þá var rúmlega 5% vöxtur hjá ferðaskrifstofum, 8% í rekstri gististaða og 3% í veitingasölu- og þjónustu. Samdráttur var hins vegar í bílaleigu (og leigu á öðrum tómstundar- og íþróttavörum) um 6%.
Velta í tækni- og hugverkaiðnaði jókst um aðeins 2% á tímabilinu og var heildarvelta atvinnugreinahópsins tæplega 122 milljarðar króna. Vöxtur var áfram í meðal- og hátækniframleiðslu (16%) sem einkum mátti rekja til aukinnar framleiðslu á tækjum og vörum til lækninga. Aftur á móti var samdráttur í öðrum greinum tæknigeirans og dróst velta saman um 8% í tölvutengdri þjónustu (þar af 15% í hugbúnaðargerð), 16% í starfsemi á sviði upplýsingaþjónustu (gagnavinnslu, hýsingu, o.fl.) og 11% í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum. Þá var einnig verulegur samdráttur í framleiðslu á lyfjum og efnum til lyfjagerðar.
Misjöfn þróun var í helstu útflutningsgreinum hagkerfisins. Velta jókst um 18% í framleiðslu málma en heimsmarkaðsverð á áli var töluvert hærra á tímabilinu nóvember til desember 2024 miðað við sama tíma fyrir ári. Gengi krónunnar var að meðaltali nær óbreytt auk þess sem útflutt magn breyttist lítið á milli ára. Í sjávarútvegi og fiskeldi var hins vegar lítilsháttar samdráttur sem stafaði af tæplega 2% minni veltu í sjávarútvegi en velta í fiskeldi jókst um rúmlega 3%. Alls nam velta í sjávarútvegi tæplega 87 milljörðum króna en 15 milljarða króna velta var í fiskeldi.
Sala á vélknúnum ökutækjum dróst áfram saman um 36% (29% með viðhaldi og viðgerðum ökutækja). Þá var almennt lítill vöxtur í heild- og smásöluverslun. Í heildverslun dróst velta saman um rúmlega 1% þar sem tæplega 11% samdráttur var í heildverslun með eldsneyti og 7% samdráttur hjá heildverslunum með timbur, byggingarefni og hreinlætistæki. Í smásöluverslun var einungis tæplega 2% vöxtur. Þar af jókst velta um 5% hjá stórmörkuðum og matvöruverslunum og 21% hjá lyfjaverslunum. Tæplega 6% samdráttur var hins vegar hjá byggingarvöruverslunum auk þess sem velta var áfram óbreytt í smásölu á fatnaði og skóm.
Heildarvelta árið 2024
Þegar árið í heild sinni er skoðað jókst velta í flestum geirum hagkerfisins. Af stærstu greinum atvinnulífsins var samdráttur í einungis þremur greinum; framleiðslu málma (-1%), sjávarútvegi og fiskeldi (-4%) og sölu, viðgerðum og viðhaldi á vélknúnum ökutækjum (-21%). Þrátt fyrir það var vöxturinn almennt tiltölulega lítill og undir verðbólgu ársins í meirihluta atvinnugreina en vísitala neysluverðs hækkaði um 5,9% á árinu.
Velta á árinu 2024 jókst mest í fasteignastarfsemi eða um 15% og nam velta greinarinnar 167 milljörðum króna samanborið við 145 milljarða árið áður. Þá var einnig 10% vöxtur hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum. Í tækni- og hugverkaiðnaði jókst velta um rúmlega 9% sem einkum mátti rekja til 26% vaxtar í meðal- og hátækniframleiðslu en mikill vöxtur var í lyfjaframleiðslu og framleiðslu á tækjum og vörum til lækninga á árinu. Loks var rúmlega 8% vöxtur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu breyttist lítið á milli ára eftir mikinn vöxt árið 2023. Alls nam veltan um 975 milljörðum króna á árinu samanborið við 934 milljarða árið áður og var það rúmlega 4% aukning á milli ára. Einkum var áberandi lítil breyting á tímabilinu júlí-ágúst þegar veltan jókst um einungis 1,5% miðað við fyrra ár en almennt var lítil breyting á veltu yfir sumar- og haustmánuði ársins frá maí til október 2024 eða innan við 4% frá fyrra ári.
Loks einkenndist árið 2024 af samdrætti í útflutningsgreinum en heilt yfir dróst velta í framleiðslu málma lítillega saman (-1%) eftir töluverðar lækkanir framan af ári þar sem álverð var lengi vel lægra en árið 2023. Í sjávarútvegi og fiskeldi var einnig 4% samdráttur sem nær alfarið mátti rekja til minni veltu í sjávarútvegi. Þá dróst velta í bílasölu saman um tæplega 30% (21% ef viðgerðir og viðhald ökutækja eru tekin með).
Um gögnin
Tölur um veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum eru bráðabirgðatölur. Allar tölur eru á nafnvirði nema annað sé tekið fram. Verðbólga fyrir tímabilið nóvember-desember 2023 til nóvember-desember 2024 var 4,8% miðað við meðalgengi vísitölu neysluverðs. Verðbólga ársins 2024 var 5,9% miðað við ársmeðaltal vísitölu neysluverðs.
Við birtingu síðustu fréttar í desember sl. var velta í virðisaukaskattskyldri starfsemi (án landbúnaðar) talin hafa verið 1.261,8 milljarðar króna (6,3% hækkun m.v. fyrra ár) á tímabilinu september-október 2024. Nú hafa nýrri tölur borist og er velta á þessu tímabili talin hafa verið 1.266,0 milljarðar króna (6,6% hækkun m.v. fyrra ár).
Tölur í landbúnaði fyrir fyrri hluta árs eru að jafnaði taldar með veltu í maí-júní og seinni hluta árs með veltu í nóvember-desember. Ekki eru birtar tölur fyrir nóvember-desember 2024 og árið 2024 í heild sinni fyrir landbúnaðargreinarnar „Ræktun nytjajurta og búfjárrækt, veiðar og tengd þjónustustarfsemi“ og „Skógrækt og skógarhögg“ þar sem tölur fyrir seinni helming árs 2024 liggja ekki fyrir. Þar af leiðandi er ekki birt tala í flokknum „Alls“ enda gæfi það villandi mynd af heildarveltu. Aftur á móti eru birtar tölur í flokknum „Alls, án landbúnaðar og skógræktar“.
1Margir bændur skila virðisaukaskattskýrslu hálfsárslega og hafa lengri skilafrest en aðrir. Ekki eru komnar tölur um veltu í landbúnaði og skógrækt fyrir seinni helming árs 2024.
Talnaefni
Velta í öllum atvinnugreinum
Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu