FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 12. DESEMBER 2016

Fjórar af hverjum hundrað konum og tveir af hverjum hundrað körlum neituðu sér um þjónustu læknis eða sérfræðings árið 2015 vegna kostnaðar, eða samtals tæplega 8 þúsund manns. Kostnaður er meiri fyrirstaða fyrir tekjulægri hópana en þá tekjuhærri, en 6% fólks í tekjulægsta fimmtungnum fór ekki til læknis vegna kostnaðar á móti rúmlega 1% fólks í efsta tekjufimmtungi.

Hlutfallslega margir á Íslandi neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar miðað við önnur Evrópuríki sé tekið mið af nýjustu samanburðartölum sem eru frá árinu 2014 en þá fór ríflega 3% Íslendinga ekki til læknis vegna kostnaðar sem var sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.

Áætlað er að 25 þúsund manns, eða um 10% fullorðinna á Íslandi, hafi árið 2015 einhvern tíma ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar þegar þau þurftu, um 11 þúsund karlar og 14 þúsund konur. Kostnaður er oftar tilgreindur sem ástæða fyrir því að sleppa tannlæknisheimsóknum hjá tekjulægri hópunum en þeim tekjuhærri, en 17% fólks í lægsta tekjufimmtungi fór ekki til tannlæknis vegna kostnaðar árið 2015 á móti 4% fólks í tekjuhæsta fimmtungnum.

 

Á heildina litið er hlutfall þeirra hátt á Íslandi sem ekki fóru til tannlæknis þrátt fyrir að þurfa þess í evrópskum samanburði. Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta.

Einn af hverjum fjórum atvinnulausum á Íslandi fór ekki til tannlæknis vegna kostnaðar árið 2014, 23% kvenna og 26% karla, sem er fjórða hæsta hlutfallið í Evrópu hjá báðum kynjum. Næst á eftir atvinnulausum eru hæstu hlutföll þeirra sem neita sér um tannlæknaþjónustu að finna hjá fólki sem er á vinnualdri en ekki á vinnumarkaði, til dæmis námsmenn, öryrkjar eða heimavinnandi. Um 17% kvenna utan vinnumarkaðar á Íslandi fór ekki til tannlæknis sökum efna árið 2014 og deilir Ísland þar hæsta hlutfallinu með Portúgal og Lettlandi. Meðal karla var hlutfallið á Íslandi um 13%, sem er annað efsta hlutfallið á listanum á eftir Lettlandi (18%).

Félagsvísar: Hagur og heilbrigðisþjónusta 2015 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1285 , netfang Thora.Thorsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.