FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 13. MARS 2017

Í evrópsku heilsufarsrannsókninni 2015 var Ísland í fjórða sæti yfir fjölda fólks með þunglyndiseinkenni. Konur eru líklegri en karlar til að hafa slík einkenni. Munur á körlum og konum var mestur í aldurshópnum 15–24 ára og 65 ára og eldri. Þunglyndiseinkenni voru algengari meðal ungra kvenna á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum.

Svíþjóð með hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum
Tæp 9% fólks á Íslandi mældist með þunglyndiseinkenni, en það er fjórða hæsta hlutfallið af þeim löndum sem tóku þátt í evrópsku heilsufarsrannsókninni. Þá voru rúm 4% með mikil einkenni og er Ísland þar með næsthæsta hlutfallið.


Flestir mældust með þunglyndiseinkenni í Ungverjalandi, rúm 10%, en fæstir í Tékklandi, rúm 3%. Af Norðurlöndunum var þetta hlutfall hæst í Svíþjóð, rúm 9%, en lægst í Finnlandi, rétt undir 5%. Noregur og Danmörk voru á svipuðu róli með rúm 6%.

Konur líklegri en karlar til að hafa þunglyndiseinkenni
Konur á Íslandi eru líklegri til að hafa þunglyndiseinkenni en karlar, tæp 11% á móti 7% karla. Hlutfallið var hærra hjá konum í öllum aldurshópum en þó áberandi hærra í yngsta og elsta aldurshópnum. Á aldrinum 15–24 ára mældust 10% karla með einkenni þunglyndis og tæp 18% kvenna. Í aldurshópnum 65 ára og eldri mældust rétt um 4,5% karla með þunglyndiseinkenni en rúm 11% kvenna.


Þunglyndiseinkenni algengari hjá ungum konum á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum
Fleiri ungar konur á aldrinum 15–24 ára mældust með þunglyndiseinkenni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi, eða tæp 18%. Svíþjóð og Danmörk komast næst Íslandi með um 15%. Hlutfallið er lægst á Kýpur og Litháen, í kringum 0,5%, og Tékklandi, tæplega 1%.



Mæling þunglyndis
Einkenni þunglyndis eru mæld með spurningalista þar sem átta atriði skera úr um niðurstöðuna. Ef þátttakendur könnuðust við tvö atriði af átta á helmingi þess tíma sem miðað var við (hálfum mánuði) töldust þeir hafa einkenni þunglyndis. Annað tveggja þurfti jafnframt að vera á meðal einkenna, áhugaleysi eða depurð. Ef fimm af átta atriðum áttu við töldust þátttakendur hafa mikil einkenni þunglyndis.

Um rannsóknina
Evrópska heilsufarsrannsóknin er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem hagstofur á Evrópska efnahagssvæðinu framkvæma. Rannsóknin var framkvæmd á Íslandi haustið 2015. Í úrtaki voru 5.700 einstaklingar sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Af þeim svaraði 4.001 einstaklingur sem þýðir að svarhlutfallið var 70,2%.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.