FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 15. MARS 2022

Alls fundu 7,7% Íslendinga eldri en 15 ára fyrir einkennum þunglyndis árið 2019. Hlutfall þeirra, sem voru með þunglyndiseinkenni á Íslandi, var örlítið hærra en meðaltalið innan Evrópusambandsins sem mældist 7,0% samkvæmt tölum frá Eurostat. Meðal Evrópuríkja var hlutfallið hæst í Frakklandi 10,8% og lægst í Serbíu 2,3%. Hlutfallið hefur lækkað hér á landi um 1,1 prósentustig frá árinu 2015 þegar það mældist 8,8%. Af þeim sem fundu fyrir einkennum á Íslandi töldust 4,2% með væg einkenni og 3,6% með mikil einkenni.

Þunglyndiseinkenni algengari á meðal kvenna
Fleiri konur en karlar fundu fyrir einkennum þunglyndis 2019 eða 9% kvenna og 6,3% karla. Hlutfall kvenna sem hafði mikil þunglyndiseinkenni var 4,5% á meðan hlutfall karla var 2,5%. Skoðað eftir aldurshópum var hlutfallið hæst í hópi 25-34 ára, eða 10,4%, og lægst í hópi 45-54 ára þar sem það var 6,4%. Hlutfall kvenna sem upplifði mikil þunglyndiseinkenni var hærra en hlutfall karla í öllum aldurshópum.

Þunglyndiseinkenni minnst í hópi fólks í efstu tekjufimmtungum og fólki með háskólamenntun
Hlutfall þeirra sem voru með þunglyndiseinkenni var hæst í hópi einstaklinga í öðrum tekjufimmtungi eða 12,9%, þar sem 6,6% einstaklinga upplifðu væg einkenni og 6,2% mikil. Hlutfallið var um 10% hjá einstaklingum í lægsta og þriðja tekjufimmtungi en aðeins 2,6% í hópi einstaklinga í fjórða og efsta tekjufimmtungi. Hlutfall þeirra sem voru með þunglyndiseinkenni var 8,0% hjá fólki með grunnmenntun, 10,7% hjá fólki með starfs- og framhaldsmenntun og 4,6% hjá háskólamenntuðum.

Mat á þunglyndiseinkennum
Þunglyndiseinkenni voru metin með 8 atriða spurningalistanum Patient health questionnaire (PHQ-8). Þeir einstaklingar sem töldust hafa væg þunglyndiseinkenni höfðu upplifað tvö til fjögur einkenni á listanum meira en helming tímans á síðustu tveimur vikum. Þeir sem töldust hafa mikið þunglyndi höfðu upplifað fimm eða fleiri einkenni meira en helming tímans. Jafnframt þurfti einstaklingur að hafa upplifað annað hvort depurð (atriði 1) eða áhugaleysi (atriði 2).

Um gögnin
Evrópska heilsufarsrannsóknin (EHIS) er samræmd rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun sem er framkvæmt af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í úrtak árið 2019 völdust af handahófi 6.600 einstaklingar 15 ára og eldri úr þjóðskrá. Þegar frá voru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis var nettóúrtakið 6.502 einstaklingar. Alls fengust nothæf svör frá 3.881 einstaklingum sem jafngildir 59,7% svarhlutfalli.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1286 , netfang lifskjararannsokn@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.