FRÉTT HEILBRIGÐISMÁL 13. NÓVEMBER 2007

Efnahags- og framfarastofnunin í París (OECD) hefur gefið út ritið “Health at a Glance 2007, OECD indicators”. Byggt er einkum á Gagnasafni OECD um heilbrigðismál 2007 (OECD Health Data 2007), alhliða gagnagrunni um heilbrigði og heilbrigðiskerfi í OECD ríkjunum. Í ritinu má finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í 30 aðildarríkjum stofnunarinnar.

Ritið skiptist í sex efnissvið sem fjallað er um hér að neðan. Í því er að finna fjölda taflna og mynda auk skýringatexta. Fréttatilkynningu OECD á ensku er hægt að nálgast á heimasíðu OECD. http://www.oecd.org/health/healthataglance. Frekari upplýsingar um íslenska efnið er hægt að nálgast frá Hagstofu Íslands.

Ísland í samanburði við önnur ríki OECD

Gæði heilbrigðisþjónustunnar
Í þessari útgáfu af Health at a Glance er í fyrsta sinn kafli um gæði heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðingahópur á vegum OECD með fulltrúum aðildarríkjanna hefur þróað og valið ákveðna gæðavísa sem gefa vísbendingar um gæði þjónustunnar á nokkrum sviðum. Val gæðavísa takmarkast af ýmsum þáttum s.s samanburðarhæfni upplýsinga og aðgengi að þeim og ber sérstaklega að hafa það í huga þegar upplýsingar eru skoðaðar frá einstökum ríkjum. Þau svið sem valin voru snúa að meðferð við bráðaástandi, krabbameinsmeðferð, meðferð langvinnra sjúkdóma og forvörnum vegna smitsjúkdóma.

Fram kemur að 89,4% þeirra sem greinst höfðu með brjóstakrabbamein á Íslandi (1996-2000) lifðu í 5 ár eða lengur eftir greiningu sem var hæsta hlutfall meðal OECD ríkja en meðaltal þeirra var 83,6%. Árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga, var í öðru til fjórða sæti ásamt Ástralíu og Danmörku eða 6,4% árið 2005, en lægst var hlutfallið á Nýja Sjálandi 5,4%. Meðaltal OECD ríkja var 10,2%. Hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga eftir heilablóðfall var þriðja lægst á Íslandi sama ár, 5,8% næst á eftir Japan og Bretlandi. Meðaltal OECD ríkja var 10,1%.

Útgjöld til heilbrigðismála
Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 9% af vergri landsframleiðslu (VLF) ríkjanna árið 2005, en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja. Í Bandaríkjunum var hlutfallið til dæmis 15,3% árið 2005 en 6% í Suður Kóreu á því ári. Hér á landi voru  heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,5% af VLF árið 2005, samanborið við 10% árið 2004.  Norðmenn, Svíar og Danir vörðu hins vegar 9,1% af VLF til heilbrigðismála árið 2005, en Frakkar aftur á móti 11,1% og Þjóðverjar 10,7%. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 10.-11. sæti OECD ríkjanna. 

Heilbrigðisútgjöld OECD-ríkja sem hlutfall af landsframleiðslu 2005

Hérlendis er meginhluti útgjalda til heilbrigðismála fjármagnaður af hinu opinbera eða um 83% árið 2005, en það svarar til 7,9% af VLF. Á hinum Norðurlöndunum var hlutur hins opinbera lítið eitt hærri eða 84-85%, að Finnlandi undanskyldu þar sem hlutfallið var 78%. Í Lúxemborg var þetta hlutfall hæst eða 91% en lægst í Bandaríkjunum eða 45%.   

Meðalheilbrigðisútgjöld OECD ríkja á mann voru 2.759 bandaríkjadalir (USD) árið 2005 miðað við jafnvirðisgildi dollars (PPP). Í Bandaríkjunum mældust útgjöldin hins vegar hæst eða 6.401 USD á mann, en aftur lægst í Tyrklandi eða 586 USD. Á Íslandi námu útgjöldin 3.443 USD á mann 2005, í Noregi 4.364 USD, í Danmörku 3.108 USD og í Svíþjóð 2.918 USD. Á þennan mælikvarða var Ísland í sjötta sæti á eftir Bandaríkjunum, Lúxemborg, Noregi, Sviss og Austurríki.  

Opinber útgjöld til heilbrigðismála á mann á Íslandi voru á sama tíma 2.842 USD miðað við jafnvirðisgildi og var Ísland í fjórða sæti hvað þessi útgjöld varðar af aðildarríkjum OECD. Opinber útgjöld á mann voru hæst í Lúxemborg 4.851 USD, þar á eftir í Noregi 3.647 USD og síðan komu Bandaríkin með 2.884 USD á mann. Lægst voru opinber heilbrigðisútgjöld mæld á þennan veg í Mexikó eða 307 USD á mann.

Lýðfræðilegur bakgrunnur
Þróun og samsetning mannfjöldans hefur áhrif á bæði þarfir heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðisútgjöld. Dregið hefur úr fjölgun mannfjöldans í mörgum ríkjum OECD á undanförnum árum sem leitt hefur til hærri meðalaldurs íbúa þeirra. Árin 1990-2005 var árleg meðalfjölgun mannfjöldans í OECD ríkjunum 0,6% en 1% á Íslandi. Árið 2005 var fæðingartíðnin 1,6 (börn á ævi hverrar konu) að meðaltali  í ríkjum OECD en hæst var hún 2,2 í Mexíkó og Tyrklandi en þar á eftir komu Ísland og Bandaríkin með 2,1.

Árið 2005 var hlutfall 65 ára og eldri af mannfjöldanum 11,7% á Íslandi. Voru aðeins fimm OECD ríki með lægra hlutfall, en meðaltal OECD var 14,7%. Hæst var hlutfallið í Japan 20% og á Ítalíu og í Þýskalandi 19%.

Heilbrigðisástand
Í flestum ríkjum OECD hafa lífslíkur aukist mikið á síðustu áratugum. Árið 2005 voru lífslíkur við fæðingu 81,2 ár á Íslandi en aðeins í Japan (82,1 ár) og Sviss (81,3 ár) voru þær hærri. Lífslíkur voru að meðaltali 78,6 ár í OECD ríkjum. Voru lífslíkur karla hæstar á Íslandi 79,2 ár en lífslíkur íslenskra kvenna í 7. sæti OECD ríkja eða 83,1 ár. Kynjamunur á lífslíkum við fæðingu var 5,7 ár að meðaltali í OECD ríkjunum árið 2005 en minnstur á Íslandi 3,9 ár.

Ævilíkur kvenna og karla við fæðingu í löndum OECD 2005

Dánartíðni vegna lungnakrabbameins var svipuð hjá konum og körlum á Íslandi árið 2004 eða 38 á hverja 100.000 íbúa (aldursstaðlað) sem er óvenjulegt miðað við önnur OECD lönd þar sem munur milli kynja var þar almennt mikill. Var dánartíðni karla af völdum lungnakrabbameins lægst í Svíþjóð og því næst á Íslandi en dánartíðni kvenna var hæst í Danmörku og næsthæst á Íslandi. Í ríkjum OECD létust að meðaltali 20 konur og 58 karlar á 100.000 íbúa úr lungnakrabbameini.

Árið 2005 var tíðni ungbarnadauða lægst á Íslandi eða sem svarar 2,3 látnum á fyrsta ári af 1.000 lifandi fæddum en meðaltal OECD landa var á sama tíma 5,4. Þá var hlutfall lifandi fæddra með lága fæðingarþyngd (undir 2500 gr.) einnig lægst á Íslandi þetta ár eða 3,9% en meðaltal OECD landa var 6,6%.

Meðalfjöldi skemmdra, tapaðra og fylltra tanna hjá 12 ára börnum (tannátustuðull) var 2,1 á Íslandi árið 2005 en meðaltal OECD ríkja var 1,6. Lægst var hlutfallið 0,7 í Þýskalandi og það var 0,9 í Danmörku en hæst 3,8 í Póllandi.

Áhrifaþættir heilsufars aðrir en læknisfræðilegir
Á Íslandi reyktu 19,5% karla og kvenna daglega árið 2005. Meðaltalið fyrir OECD var svipað fyrir konur en hærra hjá körlum (30%).

Áfengisneysla á Íslandi var 7,1 alkóhóllítri á íbúa 15 ára og eldri árið 2005 sem var heldur meira en t.d. í Noregi (6,4) og Svíþjóð (6,6). Meðaltalið fyrir ríki OECD var 9,5. Í um tveimur af hverjum þremur ríkjum OECD dró úr áfengisneyslu á tímabilinu 1980-2005. Ísland var hins vegar í hópi þeirra ríkja þar sem áfengisneysla jókst og var aukningin mest á Íslandi eða 65%.

Árið 2005 (eða ár sem næst því) var hlutfall of feitra lægst í Japan 3% og hæst 32% í Bandaríkjunum. Á Íslandi var þetta hlutfall 12% árið 2002 samanborið við 8% árið 1990.

Starfsemin í heilbrigðisþjónustu
Á Íslandi, í Noregi og Hollandi voru 3,7 læknar á 1.000 íbúa árið 2005 sem er með því hærra í ríkjum OECD þar sem meðaltalð var þrír læknar á 1.000 íbúa. Samanlagður fjöldi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða var 14 á 1.000 íbúa  á Íslandi en 8,9 að meðaltali í löndum OECD.

Árið 2005 voru 69 hjúkrunarrými á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum miðað við 1.000 íbúa 65 ára og eldri á Íslandi en meðaltal OECD ríkja var 41. Er þetta hlutfall mjög mishátt eftir löndum sem helgast meðal annars af því hvernig þjónusta við þá sem þurfa á langtímahjúkrun að halda er skipulögð og hversu vel efnið fellur að skilgreiningu OECD.

Meðallegutími á sjúkrahúsum hér á landi hefur lækkað úr 7,0 dögum árið 1990 í 5,4 daga árið 2005. Á sama tíma lækkaði meðaltal OECD ríkja úr 8,7 dögum í 6,3 daga. Meðallegutími fyrir eðlilega fæðingu var 2,1 dagur hér á landi árið 2005, sem er minna en á hinum Norðurlöndunum (2,4-3,5) og minna en meðaltal OECD sem var 3,3. Hér á landi voru gerðir 16 keisaraskurðir miðað við 100 lifandi fædda árið 2005 en 24 að meðaltali í löndum OECD.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.