FRÉTT KOSNINGAR 15. JANÚAR 2008

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til Alþingis sem fram fóru 12. maí 2007. Við kosningarnar voru alls 221.330 á kjörskrá, eða 71,1% landsmanna. Af þeim greiddu 185.071 atkvæði, eða 83,6% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla, eða 83,9% á móti 83,3% hjá körlum.

Í kosningunum buðu sex stjórnmálasamtök fram lista í öllum kjördæmum. Af 756 frambjóðendum á landinu öllu voru 399 karlar (52,8%) og 357 konur (47,2%). Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna lægra, eða 43,5%, og enn lægra meðal kjörinna þingmanna, eða 31,7%, en kjörnar voru 20 konur og 43 karlar. Fjölgaði um eina konu á þingi frá kosningunum 2003.

Úrslit kosninganna 12. maí 2007 urðu þau að gild atkvæði voru 182.169 (98,4%), auðir seðlar 2.517 (1,4%) og ógildir 385 (0,2%). Framsóknarflokkur hlaut 11,7% gildra atkvæða og 7 menn kjörna, Sjálfstæðisflokkur 36,6% og 25 þingmenn, Frjálslyndi flokkurinn 7,3% og 4 þingmenn, Samfylkingin 26,8% og 18 þingmenn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 14,3% og 9 þingmenn, en Íslands-hreyfingin fékk 3,3% gildra atkvæða og engan þingmann.

Alþingiskosningar 12. maí 2007 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.