Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til Alþingis sem fram fóru 25. apríl 2009. Við kosningarnar voru alls 227.843 á kjörskrá eða 71,4% landsmanna. Af þeim greiddu 193.975 atkvæði eða 85,1% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla, eða 85,8% á móti 84,5% hjá körlum.
Í kosningunum buðu sjö stjórnmálasamtök fram lista í öllum kjördæmum. Af 882 frambjóðendum á landinu öllu voru 517 karlar eða 58,6% og 365 konur, 41,4%. Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna lægra eða 38,1%. Hins vegar var hlutfall kvenna hærra meðal kjörinna þingmanna eða 42,9% en kjörnar voru 27 konur og 36 karlar. Hafa ekki fyrr svo margar konur verið kjörnar á þing en þeim fjölgaði um sjö frá kosningunum 2007.
Úrslit kosninganna 25. apríl 2009 urðu þau að gild atkvæði voru 187.183 (96,5%), auðir seðlar 6.226 (3,2%) og ógildir seðlar 566 (0,3%). Framsóknarflokkur hlaut 14,8% gildra atkvæða og níu menn kjörna, Sjálfstæðisflokkur 23,7% og 16 þingmenn, Borgarahreyfingin þjóðin á þing 7,2% og fjóra þingmenn, Samfylkingin 29,8% og 20 þingmenn og Vinstrihreyfingin grænt framboð 21,7% og 14 þingmenn. Frjálslyndi flokkurinn fékk 2,2% atkvæða og engan þingmann og Lýðræðishreyfingin 0,6% og engan þingmann.
Alþingiskosningar 25. apríl 2009 - Hagtíðindi
Talnaefni