FRÉTT KOSNINGAR 06. JANÚAR 2022

Kosningaþátttaka dróst saman í öllum aldurshópum í alþingiskosningunum 25. september 2021 miðað við kosningarnar sem fram fóru fjórum árum fyrr fyrir utan elstu tvo aldurshópana. Mestur var samdrátturinn í yngsta aldurshópnum, 18-19 ára, en einnig nokkur í hópnum 30-34 ára. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fyrstu niðurstöðum um kosningarnar en ítarlegri skýrsla um þær verður birt síðar á árinu.

Minnst kosningaþátttaka í aldurshópnum 20-24 ára
Alls greiddu 203.898 landsmenn atkvæði í alþingiskosningunum 2021 eða 80,1% þeirra sem voru á kjörskrá. Kosningaþátttaka kvenna var 81,5% og karla 78,7%%. Samkvæmt bráðabirgðatölum var kosningaþátttaka breytileg eftir aldri og minni hjá þeim sem yngri eru. Minnst var kosningaþátttaka í aldurshópnum 20–24 ára (67,6%) en mest hjá kjósendum 65–69 ára (90,4%).

Kosningaþátttaka minnkaði lítillega í samanburði við alþingiskosningarnar 2017 þegar hún var 81,2%, 82,1% á meðal kvenna og 80,3% á meðal karla. Kosningaþátttaka dróst saman í öllum aldurshópum á milli kosninganna 2017 og 2021 nema í tveimur elstu aldurshópunum. Mestur samdráttur var í yngsta aldurshópnum, 18–19 ára, sem fyrr segir eða -4,7% en einnig var nokkur samdráttur í aldurshópnum 30-34 ára (-2,5%). Á sama tíma jókst hins vegar kosningaþátttaka í aldurshópunum 75–79 ára (0,2%) og 80 ára og eldri (0,6%).

Hlutfall kvenkyns frambjóðenda hæst í Reykjavík suður
Ellefu stjórnmálasamtök buðu fram lista í alþingiskosningunum síðasta haust. Af 1.282 frambjóðendum á landinu öllu voru 52,8% karlar og 47,2% konur. Hæst var hlutfall kvenna í röðum frambjóðenda í Reykjavík suður (48,6%) en lægst í Suðurkjördæmi (45%). Meðalaldur frambjóðenda á landinu öllu var 49,8 ár en aldur karla var nokkru hærri en kvenna eða 51,6 ár á móti 47,7 ár. Meðalaldur frambjóðenda var lægstur í Norðvesturkjördæmi, 48,5 ár, en hæstur í Suðurkjördæmi, 50,7 ár.

307 kusu í bifreið á kjörstað
Talsverður fjöldi kjósenda fékk aðstoð við að kjósa í alþingiskosningunum eða 1.213 manns, þar af 229 á kjörfundi og 984 utan kjörfundar. Alls fengu 712 kjósendur aðstoð kjörstjóra/kjörstjórnarmanns við að kjósa en 153 aðstoð fulltrúa að eigin vali. Af þessum hópi voru 38 sem kusu með aðstoð fulltrúa að eigin vali og staðfestu vottorði réttindagæslumanns eins og nú er einnig heimilt við tilteknar aðstæður. Til þess að auðvelda þeim að kjósa, sem annað hvort voru í einangrun eða í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins, var boðið upp á þá nýjung að kjósa annars vegar í bifreið á kjörstað og hins vegar að greiða atkvæði á dvalarstað. Í heildina nýttu 348 sér þessa þjónustu, 307 kusu í bifreið og 41 kaus á dvalarstað. Á heildina litið voru mun fleiri kjósendur sem nutu aðstoðar við að kjósa nú en við alþingiskosningarnar 2017 eða 1.213 samanborið við 468.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1035 , netfang brynjolfur.sigurjonsson@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.