Ellefu stjórnmálasamtök buðu fram lista í alþingiskosningunum 28. október síðastliðinn. Af 1.244 frambjóðendum í landinu öllu voru 55,4% karlar og 44,6% konur. Karlar voru 61,9% kjörinna þingmanna en konur 38,1%. Kjörnum konum fækkaði um sex frá kosningunum 2016.
Alls greiddu 201.792 landsmenn atkvæði í kosningunum eða 81,2% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var 82,1% en karla 80,3%. Kosningaþátttaka var breytileg eftir aldri og var hún minni meðal yngri en eldri kjósenda. Var hún minnst hjá aldurshópnum 20–24 ára (69,6%) en mest hjá kjósendum 65–69 ára (91,2%). Kosningaþátttaka jókst lítillega frá kosningunum 2016 þegar hún var 79,2%, 79,5% meðal kvenna en 78,8 meðal karla. Kosningaþátttaka jókst í öllum aldurshópum en mest hjá yngstu kjósendunum 18-19 ára, úr 68,7% árið 2016 í 75,2% árið 2017, eða 9,5%.
Af þeim ellefu stjórnmálasamtökum sem buðu fram í kosningunum voru átta sem fengu yfir 5% atkvæða og kjörna fulltrúa á þing. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 25,2% gildra atkvæða, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 16,9%, Samfylkingin 12,1%, Miðflokkurinn 10,9%, Framsóknarflokkurinn 10,7%, Píratar 9,2%, Flokkur fólksins 6,9% og Viðreisn 6,7%. Önnur stjórnmálasamtök fengu samtals 2.870 atkvæði eða um 1,5% gildra atkvæða.
Alþingiskosningar 28. október 2017 - Hagtíðindi
Talnaefni
Alþingiskosningar
Yfirlit