FRÉTT KOSNINGAR 12. MAÍ 2006

Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram síðasta laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu. Síðast var kosið til sveitarstjórna vorið 2002 og því verður kosið á ný laugardaginn 27. maí 2006.

Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum sem Hagstofa Íslands lætur þeim í té. Á kjörskrárstofnum, sem Hagstofan hefur unnið vegna kosninganna í vor, er 216.191 kjósandi, 108.683 konur og 107.508 karlar. Breytingar sem eiga eftir að verða á þessum tölum til endanlegrar kjörskrár, munu verða óverulegar og stafa af leiðréttingum, einkum vegna andláts þeirra sem deyja eftir að kjörskrárstofn er unninn. Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, nú 6. maí.

Kjósendur á kjörskrárstofnum nú eru 11.246 fleiri en á kjörskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða sem svarar 5,5%. Þeir kjósendur sem nú fá að kjósa í fyrsta sinn til sveitarstjórnar sökum aldurs eru 16.501 að tölu. Það eru 7,6% af heildarfjölda á kjörskrárstofnum.

Meðal þeirra sem eru á kjörskrárstofnum fyrir kosningarnar í maí, eru 1.852 menn með lögheimili annars staðar á Norðurlöndum.

Erlendir ríkisborgarar sem eru búsettir hér og hafa kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningarnar nú, eru 4.468 að tölu, þar af 944 frá öðrum Norðurlöndum og 3.524 frá öðrum ríkjum. Þessi ríkisfangslönd eru algengust: Pólland 822, Danmörk (þar með taldar Færeyjar og Grænland) 534, Filippseyjar 279, Þýskaland 249, Bandaríkin 234, ríki í fyrrverandi Júgóslavíu 234, Taíland 220, Noregur 195, Bretland 185, Svíþjóð 171, Litáen 163, Víetnam 78, Kína 70, Frakkland 66, Rússland 63 og Holland 60.

Kosningarrétt til sveitarstjórna eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Þá eiga einnig kosningarrétt þeir sem hafa flutt lögheimili sitt frá Íslandi samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu en hefðu samkvæmt lögheimilislögum átt rétt til þess að halda lögheimili á Íslandi (námsmenn og fleiri) og fullnægja kosningarréttarskilyrðum að öðru leyti.

Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar 18 ára og eldri, enda hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fram á kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar 18 ára og eldri hafi þeir átt lögheimili hér á landi samfellt í fimm ár hið minnsta fram á kjördag.

Í meðfylgjandi töflu eru sýndar tölur um kjósendur á kjörskrárstofni fyrir öll sveitarfélög ásamt nánari upplýsingum fyrir þau sveitarfélög sem sameinast að kosningunum loknum. Þá verða sveitarfélög á landinu 79 en þau voru 105 í kosningunum 2002, 124 1998, 171 1994, 204 1990, 226 1970 og 229 1950, en um það leyti voru sveitarfélög flest á landinu.

Kjósendur á kjörskrárstofni fyrir sveitarstjórnarkosningar 27. maí 2006 

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.