Við sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí 2014 greiddu 158.616 manns atkvæði í 71 sveitarfélagi en auk þess var sjálfkjörið í þremur sveitarfélögum. Kosningaþátttaka var sú dræmasta í sveitarstjórnarkosningum til þessa eða 66,5% þar sem kosning fór fram. Kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla eða 67,3% á móti 65,9% karla.


 

Á heildina litið hækkar kosningaþátttaka með aldri. Um 45,4% einstaklinga á aldrinum 20-24 ára greiddu atkvæði í kosningunum en hæst var hlutfallið á aldursbilinu 65-69 ára, eða 82,8%. Þó var kosningaþátttaka meiri á meðal yngsta aldurshópsins en næstu aldurshópa fyrir ofan, en 51,9% 18-19 ára einstaklinga mættu á kjörstað.


 

Kjörsókn var almennt meiri því fámennari sem sveitarfélögin eru. Í sveitarfélögum með á bilinu 10 þúsund til 99.999 íbúa var kjörsóknin 63,6% en í sveitarfélögum með undir 1.000 íbúa var kjörsóknin 79%. Þetta á við um alla aldurshópa. Til dæmis var kjörsókn 20-24 ára einstaklinga 42% í sveitarfélögum með 10 þúsund til 99.999 íbúa en í sveitarfélögum með 999 íbúa eða færri var kjörsókn einstaklinga á sama aldursbili 58,9%. 


 

Um rannsóknina
Alþingi samþykkti 16. maí síðastliðinn þingsályktun um að fela forsætisráðherra að hlutast til um að Hagstofa Íslands kallaði eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári. Jafnframt fólst í tillögunni að hefja skyldi gagnasöfnun við sveitarstjórnarkosningar vorið 2014. Að fengnum tilmælum forsætisráðuneytis ákvað Hagstofan að standa að úrtaksrannsókn á kjörsókn einstaklinga til viðbótar hefðbundinni gagnasöfnun vegna kosningaskýrslna Hagstofunnar. Var úrtaksrannsókn fyrir valinu til að létta svarbyrði kjörstjórna. Hagstofan dró rúmlega 25 þúsund manna úrtak úr rafrænum stofni til kjörskrár sem Þjóðskrá lét í té. Var úrtakið lagskipt eftir stærð sveitarfélaga þannig að 100% voru hjá sveitarfélögum með 500 eða færri einstaklinga á kjörskrá , 20% hjá sveitarfélögum með 501-3.000, 10% hjá 3.001-5.000 en 5% hjá 5.001 og stærri.

Um kosningaskýrslur
Hagstofa mun að venju taka saman skýrslu um niðurstöður kosninganna í heild sem birt verður síðar.

Talnaefni