Almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram síðasta laugardag í maímánuði sem ekki ber upp á laugardag fyrir hvítasunnu. Síðast var kosið til sveitarstjórna vorið 2006. Kjörtímabil sveitarstjórnar er fjögur ár og því verður kosið á ný 29. maí 2010.
Í sveitarfélögum á almennt að kjósa hlutfallskosningu bundinni við framboð á listum. Komi engin framboðslisti fram eða svo fá nöfn á framboðslistum að sveitarstjórn verði ekki fullskipuð í bundinni kosningu skal kosning vera óbundin. Þá eru allir kjósendur í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir þeirri skyldu og hafa fyrirfram skorast undan því.
Sveitarstjórnir semja kjörskrár eftir kjörskrárstofnum þeim, sem Þjóðskrá lætur þeim í té. Á kjörskrárstofnum, sem hafa verið unnir vegna kosninganna í vor eru 225.930 kjósendur og eru konur heldur fleiri, 113.663, en karlar 112.267. Breytingar sem eiga eftir að verða á þessum tölum munu verða óverulegar og stafa af andláti þeirra sem deyja eftir að kjörskrárstofn er unninn og leiðréttingum á villum. Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, nú 8. maí.
Meðal þeirra sem eru á kjörskrárstofnum fyrir kosningarnar í maí eru 2.070 menn með lögheimili annars staðar á Norðurlöndum. Ríkisborgarar annarra ríkja á Norðurlöndum búsettir hér og með kosningarrétt eru 1.050 og borgarar annarra ríkja 3.525.
Þessi ríkisfangslönd eru algengust: Pólland 822, Danmörk (þar með taldar Færeyjar og Grænland) 586, Þýskaland 329, Litáen 245, Filippseyjar 232, Bretland 220, Taíland 215, Svíþjóð 211, Noregur 195, Bandaríkin 189, Portúgal 81, Holland 76, Frakkland 72, Víetnam 63, Kína 71, Finnland 58, Spánn 55 og Ítalía 54.
Kjósendur á kjörskrárstofni eru 9.767 fleiri nú en á kjörskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða sem svarar 4,5%. Þeir kjósendur sem nú fá að kjósa í fyrsta sinn til sveitarstjórnar sökum aldurs eru 18.772. Það eru 8,3% af heildarkjósendatölunni.
Kosningarrétt til sveitarstjórna eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Þeir sem hafa flutt lögheimili sitt frá Íslandi samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu en hefðu samkvæmt lögheimilislögum átt rétt til þess að halda lögheimili á Íslandi (námsmenn og fleiri) og fullnægja kosningarréttarskilyrðum að öðru leyti eiga einnig kosningarrétt.
Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar 18 ára og eldri, enda hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fram á kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar 18 ára og eldri hafi þeir átt lögheimili hér á landi samfellt í fimm ár hið minnsta fram á kjördag.
Að kosningum loknum verða sveitarfélög á landinu 76 en þau voru 79 í kosningunum 2006, 105 2002, 124 1998, 171 1994, 204 1990, 226 1970 og 229 1950, en um það leyti voru sveitarfélög flest á landinu.