Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Þátttaka kvenna í kosningum var lítil í byrjun en það breyttist fljótt og hafa konur tekið virkan þátt í almennum kosningum hér á landi í gegnum tíðina. Lengst af var kosningaþátttaka þeirra minni en karla en hefur jafnast smám saman og verið ívið meiri en þátttaka karla síðustu áratugina. Í síðustu alþingiskosningum árið 2013 var kosningaþátttaka kvenna 81,9% og karla 81,1%.
Konur létu fljótt til sín taka við framboð í bæjarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum og buðu fram sérstaka kvennalista sem komu konum í bæjarstjórn, fyrst 1908 í Reykjavík, og konu á þing árið 1922. Þróunin varð þó sú að konur voru lítill hluti frambjóðenda fram eftir öldinni og þeim fjölgaði hægt meðal kjörinna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum.
Allt til ársins 1949 var ein eða engin kona á Alþingi, en þá voru tvær konur kjörnar og síðan þrjár árið 1971 sem á þeim tíma svaraði til 5% þingmanna. Við kosningarnar 1983 komu sérstök kvennaframboð aftur til sögunnar, konur voru rúmlega þriðjungur frambjóðenda og fjöldi kvenna á þingi þrefaldaðist. Árið 1995 voru konur helmingur frambjóðenda og fjórðungur kjörinna þingmanna. Við kosningarnar 2013 tæpum 100 árum eftir fenginn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis voru konur 42% frambjóðenda og 40% kjörinna þingmanna.
Árin 1950–1970 voru konur 1–2% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Upp úr 1970 fór hlutfall þeirra hækkandi við hverjar kosningar, var 22% árið 1990 og 44% eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2014.
Tímamót urðu í forsetakosningum árið 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna.
Konur og kosningar í 100 ár - Hagtíðindi