FRÉTT KOSNINGAR 27. NÓVEMBER 2009

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til sveitarstjórna sem fram fóru 27. maí 2006 og náðu til 79 sveitarfélaga. Í 60 sveitarfélögum með 99% kjósenda og 172 framboðslistum var bundin hlutfallskosning, þar af var sjálfkjörið í tveimur sveitarfélögum þar sem aðeins var borinn fram einn listi. Kosning var óbundin í 19 sveitarfélögum þar sem rúmt 1% kjósenda var á kjörskrá.

Við kosningarnar voru alls 216.163 kjósendur á kjörskrá eða 71,3% landsmanna. Af þeim greiddu atkvæði 169.976 í 77 sveitarfélögum eða 78,7% kjósenda af þeim 215.932 sem voru þar á kjörskrá. Var kosningaþátttaka kvenna meiri en karla eða 79,4% á móti 78,1% karla. Tala frambjóðenda í þeim 60 sveitarfélögum með bundinni hlutfallskosningu var 2.675 og skiptist í 1.503 karla (56,2%) og 1.172 konur (43,8%). Alls voru kjörnir 529 sveitarstjórnarmenn á landinu öllu, 339 karlar eða 64,1% og 190 konur, 35,9% og hefur hlutfall kvenna af kjörnum fulltrúum hækkað úr 31.5% árið 2002.

Alls voru kjörnir 436 fulltrúar með bundinni hlutfallskosningu, 275 karlar og 161 kona. Af þessum hópi voru 227 fulltrúar kjörnir af hálfu flokkslista en 209 af hálfu annarra lista. Fulltrúar kjörnir með óbundinni kosningu voru 93, 64 karlar og 29 konur.

Sveitarstjórnarkosningar 27. maí 2006 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.