FRÉTT KOSNINGAR 14. OKTÓBER 2010

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til sveitarstjórna sem fram fóru 29. maí 2010 og náðu til 76 sveitarfélaga. Í 58 sveitarfélögum með 99% kjósenda og 185 framboðslistum var bundin hlutfallskosning, þar af var sjálfkjörið í fjórum sveitarfélögum þar sem aðeins var borinn fram einn listi. Kosning var óbundin í 18 sveitarfélögum þar sem rúmt 1% kjósenda var á kjörskrá.

Við kosningarnar voru alls 225.855 manns á kjörskrá eða 71,0% landsmanna. Af þeim greiddu atkvæði 165.238 í 72 sveitarfélögum eða 73,5% kjósenda þar sem kosning fór fram. Var þessi þátttaka ein sú dræmasta í sveitarstjórnarkosningum til þessa. Kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla eða 74,0% á móti 73,0% karla. Gild atkvæði voru 154.899. Auðir seðlar voru 9.434 og aðrir ógildir 905 eða samanlagt 6.3% greiddra atkvæða og er það óvenjuhátt hlutfall miðað við úrslit fyrri sveitarstjórnarkosninga. Tala frambjóðenda í þeim 58 sveitarfélögum með bundinni hlutfallskosningu var 2.846 og skiptist í 1.513 karla (53,2%) og 1.333 konur (46,8%). Alls voru kjörnir 512 sveitarstjórnarmenn á landinu öllu, 308 karlar eða 60,2% og 204 konur, 39,8% og hefur hlutfall kvenna af kjörnum fulltrúum aldrei verið hærra, en það var 35,9% árið 2006.

Alls voru kjörnir 418 fulltrúar með bundinni hlutfallskosningu, 247 karlar og 171 kona. Af þessum hópi voru 226 fulltrúar kjörnir af hálfu flokkslista en 192 af hálfu annarra lista. Fulltrúar kjörnir með óbundinni kosningu voru 94, 61 karl og 33 konur.

Sveitarstjórnarkosningar 29. maí 2010 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.