FRÉTT KOSNINGAR 17. MAÍ 2018

Fullveldisafmæli

Í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands birtir Hagstofan fréttir á árinu með sögulegu efni sem tengist fullveldistímanum. Hagstofan opnaði vef með sögulegum hagtölum 1. desember 2017 en þar er hægt að finna samfelldar tímaraðir í nokkrum efnisflokkum eins langt aftur og heimildir leyfa.

Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum á Íslandi jókst frá 1950 til 1974 þegar hún náði hámarki en þátttakan hefur minnkað undanfarin ár og var dræmust árið 2014. Kosningaþátttaka kynjanna hefur verið nokkuð jöfn frá 1974, þátttaka karla var heldur meiri á áttunda og níunda áratugnum en frá 1994 hefur þátttaka kvenna verið ívið meiri. Með sameiningu sveitarfélaga undanfarin ár hefur kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum fækkað til muna.

Saga sveitarstjórnarkosninga á Íslandi
Árið 1836 fóru fyrstu bæjarstjórnarkosningar fram í Reykjavík en þá voru innan við 7% Reykvíkinga með kosningarétt. Flestir fullorðnir karlar voru þá án kosningaréttar og konur nær undantekningarlaust.1 Talið er að kona hafi kosið í fyrsta sinn opinberlega í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1863.2 Árið 1866 var kosið um bæjarstjórn í nýstofnuðum Ísafjarðarkaupstað og af þeim 220 íbúum sem þar bjuggu hafði einungis 21 kosningarétt, allt karlmenn.3 Ekkjur og ógiftar konur sem réðu eigin búskap eða fyrirtæki gátu kosið til sveitarstjórnar frá 1882.


© Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Á 19. öld fram til 1872 voru engin sveitarstjórnarlög í gildi. Málefni hreppa komu oft til umræðu á fundum Alþingis á 19. öld en það var ekki fyrr en með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi árið 1872 að vald í sveitarstjórnarmálum var fengið kjörnum hreppsnefndum, sýslunefndum og amtsráði. Kosningaréttur til sveitarstjórna var rýmkaður á löngum tíma en árið 1936 var hann orðinn almennur og án eldri takmarkana.4

Í Reykjavík og Hafnarfirði fengu giftar konur kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna árið 1907 með sömu skilyrðum og karlar. Þannig gátu giftar konur tekið þátt í kosningunum í Reykjavík og Hafnarfirði frá 1908.5 Árið 1909 fengu karlar og konur 25 ára og eldri rétt til að kjósa í hreppsnefndum, bæjarstjórnum og víðar. Kjörgengir voru þeir sem höfðu kosningarétt að undanskyldum hjúum sem fengu rétt til kjörgengis árið 1926.6

Elstu skýrslur um sveitarstjórnarkosningar
Elstu opinberu heimildir sem til eru um sveitarstjórnarkosningar samfellt eru upplýsingar um bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík en þær ná aftur til ársins 1908.

Fyrstu skýrslur sem Hagstofan birti um sveitarstjórnarkosningar voru um bæjarstjórnarkosningar árin 1930 og 1934. Í lögum um sveitarstjórnarkosningar frá 1936 var kveðið á um að kjósa skyldi fulla tölu bæjarfulltrúa og hreppsnefndarmanna á öllu landinu fjórða hvert ár og að kosningar skyldu fara fram sama árið um land allt. Fyrstu kosningar á grundvelli laganna fóru fram árið 1938 en heildstæð gögn vantar fyrir árin 1942 og 1946. Samfelldar upplýsingar um sveitarstjórnarkosningar fyrir allt landið ná aftur til ársins 1950.

Hafa ber í huga að ekki var kosið í öllum sveitarfélögum við hverjar kosningar, einkum þegar einungis einn framboðslisti var í kjöri og hann því sjálfkjörinn. Tölur um kosningaþátttöku ná eingöngu til þeirra sveitarfélaga þar sem kosning fór fram hverju sinni.

Mest kosningaþátttaka árið 1974
Kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum jókst frá 1950 til 1974 en hefur minnkað undanfarin ár. Hina auknu þátttöku á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar má að mestu skýra með dræmri kosningaþátttöku í sveitahreppum fyrst í stað sem smám saman jókst án þess þó að ná sambærilegu hlutfalli og hún var í kaupstöðum og svokölluðum kauptúnahreppum þess tíma.

Í sveitarstjórnarkosningum var þátttakan mest árið 1974 (87,8%). Til samanburðar má nefna að í alþingiskosningum var mest kosningaþátttaka árið 1956 (92,1%) og við forsetakjör árið 1968 (92,2%). Dræmust var kosningaþátttaka í sveitarstjórnarkosningum árið 2014 (66,5%).

Samfelldar heimildir um kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum eftir kyni eru ekki til fyrr en árið 1974 en frá þeim tíma hefur kosningaþátttaka kynjanna verið nokkuð jöfn. Þátttaka karla var heldur meiri á áttunda og níunda áratugnum en frá 1994 hefur þátttaka kvenna verið ívið meiri.

Kjörnum fulltrúum fækkar
Með sameiningu sveitarfélaga undanfarin ár hefur kjörnum fulltrúum fækkað til muna. Árið 1950 voru þeir alls 1.143, þar af voru 1.136 karlar og einungis sjö konur. Árið 2014 voru kjörnir fulltrúar 504, 282 karlar og 222 konur. Þess má geta að árið 1938 voru 215 sveitarfélög í landinu og fjölgaði þeim um 14 fram til ársins 1950 þegar þau voru flest. Við síðustu kosningar til sveitarstjórna árið 2014 voru þau 74.

1 Þorleifur Óskarsson. Saga Reykjavíkur í þúsund ár. 870–1870. Seinni hluti, bls. 224. Útg. Iðunn 2002.
2 https://skjalasafn.is/heimild/fyrstu_baejarstjornarkosningar_akureyrar_1863_verda_sogulegar
4 Þórður Eyjólfsson. Alþingi og héraðsstjórn, bls. 30–31. Útg. af Alþingissögunefnd 1952.
5 https://www.hagstofa.is/media/49159/hag_150618.pdf
6 Lög nr. 49/1909. Stjórnartíðindi A 1909, bls. 242.

https://sogulegar.hagstofa.is/ — sérvefur

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.