FRÉTT LANDBÚNAÐUR 01. FEBRÚAR 2024

Kjötframleiðsla innanlands árið 2023 var alls 30.076 tonn, 1% minni en árið 2022. Alifuglaframleiðsla nam 9.663 tonnum og hefur aðeins einu sinni verið meiri, árið 2017. Kjötframleiðsla í öðrum greinum dróst saman. Þá dróst sala innlendrar kjötframleiðslu saman um 2% á sama tíma og innflutningur á kjöti jókst verulega.

Aldrei meiri innflutningur á nautakjöti
Innflutningur á kjöti jókst um 17% á milli ára og nam 4.976 tonnum. Innflutningur á nautakjöti jókst um 48% og hefur aldrei verið meiri eða 1.344 tonn. Innflutningur á alifuglakjöti jókst um 11% og var 2.021 tonn, innflutningur á svínakjöti jókst um 5%, var alls 1.591 tonn, og innflutningur á kindakjöti nam 20 tonnum. Þá nam innflutningur á kjúklingi frá Úkraínu 493 tonnum eða 24% af innfluttu alifuglakjöti.

Útflutningur á kindakjöti dróst saman um 43% á milli ára. Birgðir af kindakjöti í árslok 2023 námu 4.660 tonnum og voru 18% meiri en árið 2022.

Eggjaframleiðsla aldrei verið meiri
Eggjaframleiðsla hefur aukist aftur en hún minnkaði töluvert í kórónuveirufaraldrinum. Framleiðslan nam 4.790 tonnum og hefur aldrei verið meiri. Aukningin á milli áranna 2022 og 2023 var 11%.

Mjólkurframleiðslan hefur ekki verið meiri síðan 2019, eða 155.975 tonn, sem er þriðja mesta ársframleiðsla frá upphafi. Ullarframleiðslan dróst hins vegar saman um 8% miðað við árið 2022 og var einungis 543 tonn.

Þúsund tonn af gulrótum
Kornuppskera er nú birt sundurliðuð niður á tegundir, þ.e. bygg, hafra og hveiti/rúg, og einnig er uppskera á olíufræum (repju- og nepjufræi) birt í fyrsta sinn. Kornuppskera var með minna móti árið 2023 enda voraði seint og veðurskemmdir talsverðar um haustið. Uppskera af kartöflum og gulrófum var svipuð og undanfarin ár en gulrótauppskeran fór í fyrsta skipti yfir 1.000 tonn.

Uppskera af paprikum var sú mesta síðan 2014, eða 221 tonn, og agúrkuuppskeran hefur aldrei verið meiri, 2.096 tonn. Blómkálsuppskeran var einnig með meira móti og nam 123 tonnum.

Tölur um heyuppskeru verða birtar ásamt búfjártölum með vorinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.