FRÉTT LANDBÚNAÐUR 17. MARS 2015

Áætlað heildarframleiðsluvirði landbúnaðarins fyrir árið 2014¹  var 64,2 milljarðar á grunnverði þ.e. að meðtöldum vörustyrkjum en frátöldum vörusköttum2  og jókst um 4,3% á árinu. Virði afurða búfjárræktar er talið vera 41,7 milljarðar króna og þar af vörutengdir styrkir og skattar um 9,9 milljarðar króna. Virði afurða nytjaplönturæktar eru tæpir 19,5 milljarðar og þ.a. vörutengdir styrkir og skattar 291 milljónir króna. Aðfanganotkun landbúnaðarins í heild er áætluð 48,5 milljarðar árið 2014 og jókst um 4,2% frá fyrra ári. 

Aukningu í framleiðsluvirði árið 2014 má rekja meira til magnbreytinga en verðbreytinga. En breytingu á notkun aðfanga má rekja til 6,5% magnaukningar og 2,2% hækkunar á verði.
 
Framleiðsluverðmæti landbúnaðarins árið 2013 er metið 61,6 milljarða á grunnverði miðað við uppfærðar tölur og er það heildaraukning um 4,3% frá fyrra árinu, 2012. Þessa aukningu má rekja til 1,3% magnaukningar og 3% hækkunar á verði.

Verðmæti afurða búfjárræktar jókst um 3,0% árið 2013 og var metið á tæplega 40,3 milljarða króna. Verðmætustu afurðirnar eru mjólk og kindakjöt, þar sem framleiðsluverðmæti jókst annars vegar um 1,8% og hins vegar 3,8%. Framleiðsluverðmæti svínakjöts hækkaði um 34,1% milli ára og alifugla um 12,1%. Framleiðsluverðmæti nytjaplantna, að heimanotuðu fóðri meðtöldu, reyndist 18,4 milljarðar eða 8,8% hærra en fyrra ár, 2012. Verðmæti afurða kornræktar minnkaði um 24,4% frá árinu á undan og kartaflna um 5,1%. Framleiðsluverðmæti fóðurjurta jókst um 13,3% og garðyrkjuafurða um 5,7%.

Aðfanganotkun landbúnaðarins jókst um 10,3% á árinu 2013, í 46,5 milljarða milli ára og munar þar helst um 10,7% verðbreytingu en magnbreytingin einungis -0,4%. Í samræmi við umfang búfjárræktarinnar í íslenskum landbúnaði er fóðurnotkun veigamesti liður í aðföngunum með upp undir helmings hlut. Líkt og í framleiðsluverðmæti nytjaplantna er hér verðmæti heimaræktaðs fóðurs meðtalið.

Hagstofa Íslands gefur hagreikninga landbúnaðarins út núna í þriðja sinn. Í einhverjum tilfellum hafa niðurstöður fyrri ára breyst en það er vegna endurbóta á aðferðafræði og aðgengis að nýjum upplýsingum.

Afkoma landbúnaðarins 2012-2014        
        Hlutfallsleg 
        breyting frá 
Á verðlagi hvers árs, millj.kr. 2012 2013 2014 3 fyrra ári
         
Virði afurða nytjaplönturæktar  16.910 18.390 19.490 6,0
þ.a. Vörutengdir styrkir og skattar af nytjaplönturækt 350 390 291 -25,3
Virði afurða búfjárræktar 39.107 40.285 41.727 3,6
þ.a. Vörutengdir styrkir og skattar af búfjárrækt 9.273 9.471 9.929 4,8
Tekjur af landbúnaðarþjónustu 370 379 384 1,4
Tekjur af óaðskiljanlegri aukastarfsemi   2.623 2.515 2.585 2,8
Heildarframleiðsluvirði 59.010 61.568 64.185 4,3
Kostnaður við aðfanganotkun 42.187 46.524 48.480 4,2
Vergt vinnsluvirði 16.823 15.044 15.705 4,4
Afskriftir fastafjármuna 3.511 4.536 4.526 -0,2
Hreint vinnsluvirði 13.312 10.507 11.179 6,4
Aðrir framleiðslustyrkir 167 156 161 3,8
Aðrir framleiðsluskattar
Þáttatekjur 13.479 10.663 11.341 6,4
Launakostnaður 4.389 4.765 5.286 10,9
Rekstrarhagnaður/einyrkjatekjur 9.089 5.898 6.055 2,7
Leiga og önnur leigugjöld af fasteignum sem ber að greiða (jarðaleiga)  129 143
Fjármagnsgjöld 4.168 4.073
Fjáreignatekjur  172 98
         


¹Áætlun ársins 2014 byggist á lokaniðurstöðum ársins 2013 og þeim upplýsingum sem fyrirliggjandi eru um magn-og verðbreytingar árið 2014.

2Vörutengdir styrkir eru s.s. beingreiðslur en vörutengdir skattar eru s.s. búnaðargjald og verðmiðlunargjöld.

3Áætlað

 

Talnanefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.