Framleiðsla á alifuglakjöti náði nýjum methæðum árið 2024 og fór í fyrsta skiptið yfir 10 þúsund tonn. Svínakjötsframleiðsla nam 6.756 tonnum sem gerir árið að fjórða stærsta framleiðsluári frá upphafi. Nautakjötsframleiðslan dróst lítillega saman en hefur haldist yfir 4.800 tonnum síðustu fjögur ár. Frá árinu 2008 hefur nautakjötsframleiðsla verið í nær stöðugum vexti.
Kindakjötsframleiðsla var hins vegar í sögulegu lágmarki og hefur aðeins einu sinni verið minni síðustu 40 ár eða árið 1997. Fjöldi sláturfjár var 447 þúsund og hefur ekki verið minni síðan 1954, þegar hann var 321 þúsund. Þrátt fyrir fækkun sláturfjár hefur meðalkjötmagn eftir hvern sláturgrip (fallþungi) aukist um 22% á sama tímabili.
Næst minnsti útflutningur á kindakjöti frá 2008
Útflutningur á kindakjöti nam 2.048 tonnum, sem er lítillega meira en árið 2023, en er engu að síður næst minnsti útflutningur síðan árið 2008. Þá voru 331 tonn af hrossakjöti flutt út árið 2024.
Aldrei meiri innflutningur á nautakjöti
Innflutningur á kjöti var örlítið minni en árið 2023 þegar hann náði methæðum. Aldrei áður hefur meira magn af nautakjöti verið flutt inn en árið 2024, alls 1.356 tonn. Innflutningur á alifuglakjöti nam 1.877 tonnum og á svínakjöti 1.527 tonnum. Þá voru flutt inn 20 tonn af lambakjöti sem er næst mesta magn á eftir árinu 2019 þegar innflutningurinn nam 39 tonnum.
Mest aukning í svínakjötsframleiðslu í desember
Heildarkjötframleiðslan í desember 2024 var 1.750 tonn sem er 3% aukning frá desember 2023. Mest aukning var í svínakjötsframleiðslu sem jókst um 14% og alifuglaframleiðslu sem jókst um 5%. Á sama tíma dróst nautakjötsframleiðsla saman um 6% miðað við sama mánuð árið á undan.