FRÉTT LANDBÚNAÐUR 20. FEBRÚAR 2024

Fimm helstu greinar landbúnaðar skiluðu hagnaði upp á alls 1,9 milljarða króna árið 2022. Þetta var 24% hækkun frá fyrra ári en þá var afkoman einnig jákvæð, um 1,5 milljarða króna. Aukninguna á milli ára má alfarið rekja til sauðfjár- og kúabúa en samdráttur var í afkomu annarrar nautgripa- og loðdýraræktar auk þess sem hagnaður stóð í stað í garðrækt og plöntufjölgun. Þá batnaði afkoman á öllum landsvæðum nema á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Þrátt fyrir auknar rekstrartekjur á árinu voru skýr merki um áhrif verðbólgu og vaxta þar sem vöru- og hráefniskostnaður jókst umtalsvert auk þess sem fjármagnskostnaður hækkaði um 38%. Þá hélt búum og rekstraraðilum áfram að fækka líkt og undanfarin ár en þeim hefur nú fækkað um 15% eða 434 síðan 2008.

Aukinn hagnaður hjá sauðfjár- og kúabúum
Þrjár af fimm helstu greinum landbúnaðar skiluðu hagnaði árið 2022. Kúabú högnuðust um 1,2 milljarða króna eða 44% meira en árið 2021 þegar þau skiluðu 827 milljóna króna hagnaði. Þá högnuðust sauðfjárbú um 539 milljónir króna samanborið við 438 milljónir árið áður (23% aukning).

Aftur á móti var taprekstur í annarri nautgriparækt fimmta árið í röð auk þess sem loðdýrarækt skilaði tapi í áttunda skiptið á síðustu 10 árum. Í garðrækt og plöntufjölgun var hagnaðurinn óbreyttur 308 milljónir króna en þó voru töluverðar sveiflur í undirflokkum greinarinnar. Til dæmis var methagnaður í blómarækt (164 milljónir króna) og ræktun á aldingrænmeti (192 milljónir króna) en mettap í ræktun annarra nytjajurta (-137 milljónir króna).

Mesta hækkun tekna síðan 2011
Rekstrartekjur í helstu fimm greinum landbúnaðarins jukust um 11% á milli ára og námu 56,9 milljörðum króna árið 2022. Þetta var jafnframt mesta hækkun síðan 2011 en þó einungis 3% umfram verðbólgu ársins sem var 8,3%. Tekjur jukust í öllum greinum nema loðdýrarækt (-19%) og var hlutfallslega mest aukning í annarri nautgriparækt (20%). Meginþorri tekjuaukningarinnar í krónum talið kom þó frá sauðfjárrækt og ræktun mjólkurkúa en tekjur jukust um rúm 11% í báðum greinunum.

Ræktun mjólkurkúa (kúabú) var stærsta grein landbúnaðarins með 30,4 milljarða króna í tekjur árið 2022 samanborið við 27,3 milljarða árið áður. Sauðfjárrækt var svo næststærst með 15,3 milljarða í tekjur samanborið við 13,7 milljarða króna árið 2021. Þrátt fyrir þennan töluverða tekjuvöxt á milli ára voru rekstrartekjur landbúnaðarins aðeins 4% yfir meðaltali áranna 2008 til 2021 og enn undir hæsta gildi tímabilsins sem náðist árið 2016 (58,7 milljarðar króna að raunvirði).

Vaxandi vöru-, hráefnis- og fjármagnskostnaður
Rekstrargjöld jukust í öllum greinum og alls um 9% frá fyrra ári, úr 46,3 milljörðum króna árið 2021 í 50,4 milljarða króna árið 2022. Hlutfallslega jókst kostnaður mest í annarri nautgriparækt og loðdýrarækt og skýrir það að miklu leyti rekstrartap ársins. Mest bar á aukningu vöru- og hráefniskostnaðar um 16% fyrir greinarnar í heild og nam hann alls 15,4 milljörðum króna árið 2022. Þar af voru 3,6 milljarðar króna hjá sauðfjárbúum (23% aukning á milli ára) og 9,4 milljarðar hjá kúabúum (18% aukning á milli ára).

Að auki var áberandi aukning fjármagnskostnaðar um 38% á milli ára en fjármagnsliðir voru neikvæðir um -4,6 milljarða króna árið 2022 samanborið við -3,3 milljarða króna árið 2021. Áhrifa aukins fjármagnskostnaðar og vöru- og hráefniskostnaðar gætti í öllum greinum landbúnaðar nema garðrækt og plöntufjölgun en þar var breyting á gjöldum í samræmi við almenna verðþróun. Heilt yfir hafa rekstrargjöld landbúnaðarins ekki verið hærri frá upphafi en eins og áður sagði voru rekstrartekjur ársins 2022 enn nokkuð frá sínu hæsta gildi og hefur því afkoma greinarinnar átt undir högg að sækja síðastliðin ár.

Áframhaldandi fækkun búa
Fækkun var í öllum greinum landbúnaðar árið 2022. Alls fækkaði rekstraraðilum um 98 á árinu eða 4% og var samanlagður fjöldi þeirra 2.513 samanborið við 2.611 árið áður. Mest fækkaði sauðfjárbúum eða um 47 (3%) og hefur þeim fækkað um 306 (17%) síðan 2008. Kúabúum fækkaði um 34 (5%) á árinu en alls voru 668 starfandi kúabú í árslok 2022 og hafði þeim því fækkað um 91 (12%) frá árinu 2008.

Sé miðað við landsvæði var fækkunin tiltölulega jöfn á milli landshluta. Mest fækkaði búum á Suðurlandi eða um 33 (5,4%) en þar eru jafnan flest bú og voru þau 579 árið 2022 samanborið við 612 árið 2021. Minnst var fækkunin hlutfallslega á Norðurlandi vestra eða um 2,2%. Síðan 2008 hefur búum og rekstraraðilum í landbúnaði fækkað um alls 15% eða 434 á landinu öllu.

Bættur efnahagur
Fjárhagsstaða landbúnaðarins batnaði á milli ára og jókst eigið fé um alls 24% vegna ágætrar afkomu á árinu og lítið breyttrar skuldastöðu. Eigið fé jókst í öllum greinum nema loðdýrarækt en mest var aukningin hjá kúabúum (46%) og í garðrækt og plöntufjöldun (41%) þar sem eignir jukust um 19% á móti einungis 9% aukningu skulda. Eigið fé í loðdýrarækt hefur verið neikvætt fimm ár í röð en þar drógust eignir saman um 8% samhliða 9% aukningu skulda og taprekstri árið 2022.

Alls jukust eignir fimm helstu greina landbúnaðarins um 5% og námu þær 86,1 milljarði króna árið 2022 samanborið við 82 milljarða árið áður. Meginþorri eignanna var í formi fastafjármuna eða ríflega 60 milljarðar króna. Skuldir jukust aftur á móti einungis um 2% með tilsvarandi jákvæðum áhrifum á efnahaginn. Þá lækkaði hlutfall skulda af eignum, það er sá hluti eigna sem var fjármagnaður með skuldum, úr 88% árið 2021 í 86% árið 2022. Landbúnaðurinn hefur því aldrei verið minna skuldsettur sé horft á tímabilið 2008 til 2022.

Um gögnin
Við útgáfu þessarar fréttar voru gögn og arðferðafræði við úrvinnslu endurskoðuð með smávægilegum áhrifum á endanlegar niðurstöður. Breytingarnar höfðu þó ekki merkjanleg áhrif á heildarmynd reksturs og efnahags og þróun einstakra reikningsliða yfir tíma en fjárhæðir breyttust ýmist til hækkunar eða lækkunar sem þó var vel innan almennra skekkjumarka. Tölur um fjölda rekstraraðila breyttust til hækkunar flest ár en þróunin yfir tíma var óbreytt (það er samfelld fækkun búa).

Engum áætlunum eða nálgunum var beitt við gerð yfirlitanna og var það ólíkt fyrri árum. Vegna þessa var bætt við liðnum „Ótilgreint“ í rekstrar- og efnahagsyfirlit eftir stærðarflokkun fyrir sauðfjárrækt, kúabú og önnur nautgripabú og inniheldur sá flokkur gögn um rekstraraðila sem skila ekki inn upplýsingum um fjölda sauðfjár, kúa og nautgripa (þessar tölur voru áætlaðar áður en gátu gefið misvísandi mynd um raunverulega stöðu búa eftir stærð).

Rekstrartekjur: Sundurliðun á rekstrartekjum var hætt frá og með árinu 2017 þar sem framtal vegna búnaðargjalds (RSK 1.09) var lagt niður árið 2016. Framtalið var lagt til grundvallar skiptingu rekstrartekna í tekjur nautgriparæktar vegna aðalbúgreina og aukabúgreina. Eftir 2016 er skiptingin ekki lengur möguleg og slík sundurliðun tekna því ekki birt.

Flokkun: Bændur sem eru í blönduðum rekstri teljast starfandi í þeirri atvinnugrein sem skilar þeim hlutfallslega mestum tekjum. Þannig eru til dæmis einstaka stór sauðfjárbú skráð á meðal kúabúa eða annarra nautgripabúa enda tekjur þeirra meiri af kúa- eða nautgriparækt en sauðfjárrækt.

Fjöldi: Tölur um fjölda eiga við um alla aðila í landbúnaði sem skila rekstrarframtali og geta t.d. innihaldið aðila án tekna sem þó hafa eignir og skuldir á árinu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.