Gefin hafa verið út Hagtíðindin Alþjóðlegur samanburður á launum á almennum vinnumarkaði 2002 í efnisflokknum Laun, tekjur og vinnumarkaður. Þetta eru niðurstöður könnunar á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, sem ber nafnið Structure of earnings survey og nær samanburðurinn til ríkja Evrópusambandsins auk Íslands, Noregs, Rúmeníu og Búlgaríu en án Möltu. Upplýsingar um Ísland eru af almennum vinnumarkaði og ná til atvinnugreinanna iðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar og verslunar og viðgerðarþjónustu.
Niðurstöður ná til árslauna, heildartímakaups og greiddra vinnustunda að viðbættum launum eftir kyni, menntun og aldri. Laun eru sett fram bæði í evrum og að teknu tilliti til jafnvirðisgilda.
Samanborið við önnur Evrópulönd eru árslaun á Íslandi há í verslun og viðgerðarþjónustu og í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Í iðnaði eru árslaun heldur lægri. Í þessum þremur atvinnugreinum er tímakaup á Íslandi ekki eins hátt í samanburði við Evrópulönd og skýrist það aðallega af því að vinnuvikan er lengri á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Á þetta einkum við um byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Jafnframt er hlutfall yfirvinnustunda af heildarfjölda greiddra vinnustunda hátt á Íslandi. Laun eru einnig borin saman að teknu tilliti til verðlags í löndunum. Í öllum tilvikum raðast Ísland neðar á lista við samanburð á launum þegar tekið hefur verið tillit til verðlags enda er verðlag á Íslandi hátt í samanburði við flest Evrópulönd.
Alþjóðlegur samanburður á launum á almennum vinnumarkaði 2002 - Hagtíðindi