Atvinnutekjur hækka um 8,2% milli áranna 2004 og 2005

Meðalatvinnutekjur í aðalatvinnugrein voru 2,9 milljónir króna árið 2005 og hækkuðu um 8,2% milli ára.

Meðalatvinnutekjur í aðalatvinnugrein voru hærri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Árið 2005 voru meðalatvinnutekjur á höfuðborgarsvæðinu 3,1 milljón krónur og hækkuðu um 7,4% milli ára. Utan höfuðborgarsvæðis hækkuðu meðalatvinnutekjur meira eða um 9,3% og voru 2,7 milljónir króna.

Utan höfuðborgarsvæðisins voru tekjur hæstar á Austurlandi, 2,9 milljónir króna, en lægstar á Norðurlandi vestra, 2,5 milljónir króna. 

 

Atvinnutekjur hæstar í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum
Meðalatvinnutekjur í aðalatvinnugrein voru hæstar í atvinnugreininni fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar (J) eða 5,1 milljónir króna árið 2005 og hækkuðu um 20,1% milli ára.
Meðalatvinnutekjur voru lægstar í landbúnaði; dýraveiðum og skógrækt (A) eða tæplega ein milljón króna og lækkuðu um 5,6% milli ára. Meðalatvinnutekjur voru hæstar í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum (J) á höfuðborgarsvæðinu eða 5,6 milljónir króna en lægstar í landbúnaði; dýraveiðum og skógrækt (A) á norðurlandi vestra eða 0,5 milljónir króna. 

Atvinnutekjur kvenna 63,7% af atvinnutekjum karla
Meðalatvinnutekjur karla í aðalatvinnugrein voru 3,6 milljónir króna árið 2005 og höfðu hækkað um 7,8% milli ára. Meðalatvinnutekjur kvenna í aðalatvinnugrein voru 2,3 milljónir króna og höfðu hækkað um 8,8%. Að meðaltali voru konur með 63,7% af meðalatvinnutekjum karla árið 2005 en voru með 56,7% árið 1998. Hlutfallið hækkaði um 0,9% milli áranna 2004 og 2005.

Atvinnutekjur hæstar hjá körlum 35 til 39 ára og konum 45 til 49 ára
Meðalatvinnutekjur í aðalatvinnugrein eru hæstar um miðbik ævinnar. Árið 2005 náðu karlar hámarkstekjum á aldrinum 35 til 39 ára, 4,4 milljónir króna og konur hámarkstekjum á aldrinum 45 til 49 ára, 2,8 milljónir króna. 

Fram til 24 ára aldurs eru tekjur þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins hærri hjá báðum kynjum en eftir það eru tekjur á höfuðborgarsvæðinu hærri. 

 


Heildaratvinnutekjur jukust um 14,8% milli áranna 2004 og 2005

Árið 2005 voru heildaratvinnutekjur 521,8 milljarðar króna samanborið við 454,2 milljarða króna árið 2004 og jukust um 14,8%. Á höfuðborgarsvæðinu voru heildaratvinnutekjur 344,3 milljarðar króna sem er aukning um 15,7% milli ára en heildaratvinnutekjur utan höfuðborgarsvæðisins voru 175,5 milljarðar króna og jukust um 13,7%. Heildaratvinnutekjur á höfuðborgarsvæðinu voru 66,0% af heildaratvinnutekjum í landinu. Árið 2004 var hlutfallið 65,5%.

Ef skoðað er hlutfall einstakra atvinnugreina af heildaratvinnutekjum milli áranna 2004 og 2005 kemur m.a. í ljós að hlutfall fiskveiða (B), fiskvinnslu (DA1520) og landbúnaðar; dýraveiða og skógræktar (A) hefur minnkað ef litið er til landsins alls en hlutfall byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar (F) og fjármálaþjónustu, lífeyrissjóða og vátrygginga (J) hefur aukist. 


Um gögnin
Gögnin byggja á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyld laun. Atvinnutekjur eru beinar skattskyldar launagreiðslur fyrir vinnuframlag auk dagpeninga og ökutækjastyrks. Til atvinnutekna telst einnig reiknað endurgjald einyrkja. Aðalatvinnugrein hvers einstaklings telst vera sú atvinnugrein sem skilar hæstum tekjum í hverjum mánuði, ef fleiri en ein grein kemur til greina. Búseta er miðuð við búsetu einstaklings fyrsta hvers mánaðar en ekki aðsetur launagreiðanda.

Meðalatvinnutekjur í aðalatvinnugrein eru summa árstekna einstaklinga innan atvinnugreinar deilt með meðalfjölda starfandi innan atvinnugreinar. Meðalatvinnutekjur má túlka sem meðalárslaun í aðalstarfi ef unnið er alla tólf mánuði ársins.  Meðalatvinnutekjur taka ekki tillit til vinnuframlags og því ekki um ársverk að ræða. 

Heildaratvinnutekjur eru summa  staðgreiðsluskyldra atvinnutekna innan atvinnugreinar. 

Íslensk atvinnugreinaflokkun  ÍSAT 95
A Landbúnaður
B Fiskveiðar
DA1520 Fiskvinnsla
D án DA1520 Annar iðnaður
E Veitustarfsemi
F Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð
G Verslun og ýmis viðgerðaþjónusta
H Hótel- og veitingahúsarekstur
I Samgöngur og flutningar
J Fjármálaþjónusta, lífeyrissjóðir og vátryggingar
K Fasteigna- og viðskiptaþjónusta
L Opinber stjórnsýsla
M Fræðslustarfsemi
N Heilbrigðis- og félagsþjónusta
O Önnur samfélagsþjónusta

Tölurnar eru bráðabirgðatölur og geta breyst lítillega milli ára.

Talnaefni