FRÉTT LAUN OG TEKJUR 16. SEPTEMBER 2020

Í dag, miðvikudaginn 16. september kl. 11:00, verður fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar kynnt. Kjaratölfræðinefnd er nýr samstarfsvettvangur um gerð og hagnýtingu tölfræðiupplýsinga um laun og efnahag sem nýtast við kjarasamningsgerð. Í skýrslunni er fjallað um kjarasamningslotuna sem hófst árið 2019, umfang kjarasamningagerðar og þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar og verður honum streymt á nýjum vef kjaratölfræðinefndar, ktn.is, undir flipanum Kynningarfundur.

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mun ávarpa fundinn og Edda Rós Karlsdóttir, formaður kjaratölfræðinefndar, kynna skýrsluna og gera grein fyrir helstu atriðum hennar. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Tekist hefur góð samstaða um þær upplýsingar sem settar eru fram í skýrslunni og er það von nefndarinnar að hún nýtist hagaðilum vel.

Skýrslan er sú fyrsta í röð skýrslna kjaratölfræðinefndar, en gert er ráð fyrir að nefndin gefi framvegis út tvær skýrslur á ári og verða þær gerðar aðgengilegar á vef kjaratölfræðinefndar.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.