FRÉTT LAUN OG TEKJUR 16. ÁGÚST 2018

Hagstofa Íslands birtir í dag greinargerð um aðferðafræði launavísitölu. Tilgangur greinargerðarinnar er að lýsa launavísitölunni, ásamt gögnum og tölfræðiaðferðum sem lögð eru til grundvallar útreikningum. Aðferðir launavísitölu eru settar í samhengi við almenna aðferðafræði verðvísitalna og lagt mat á þekktar skekkjur við útreikninga á vísitölum, rek (e. chaining drift) og líftíma mælieininga (e. life-cycle errors), í tilviki launavísitölu.

Helstu atriði úr greinagerðinni:

  • Þær aðferðir sem Hagstofan notar við útreikning á launavísitölu eru í samræmi við viðkenndar aðferðir verðvísitalna þar sem hagnýtt eru yfirgripsmikil gögn með skipulögðum hætti. Helstu áskoranir tengjast skorti á þekju og endurnýjun úrtaks. 
  • Launavísitala er verðvísitala sem byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands en einnig eru staðgreiðslugögn notuð við vigtar.
  • Við útreikning á verðbreytingum í grunni er notast við Törnqvist afburðavísitölu sem byggir á pöruðum breytingum (e. matched sample model) reglulegs tímakaups milli tveggja samliggjandi mánaða þar sem miðað er við fasta einingu ráðningarsambands (launagreiðandi, launamaður, starf og atvinnugrein). Við útreikning í efra lagi, þar sem grunnliðir eru vegnir saman, er notast við keðjutengda Laspeyres fastgrunnsvísitölu.
  • Mat á skekkjum vegna reks bendir til þess að slíkar skekkjur séu ekki vandamál í tilviki launavísitölu.
  • Mat á skekkjum vegna líftíma mælieininga bendir til lítilla áhrifa á undirvísitölur en síður á heildarvísitölu.
Hagtíðindi

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.