FRÉTT LAUN OG TEKJUR 28. OKTÓBER 2021

Haustskýrsla kjaratölfræðinefndar verður kynnt í dag fimmtudag 28. október 2021 kl. 10:00 en í skýrslunni er fjallað um kjarasamningalotuna sem hófst árið 2019 og stendur enn yfir, þróun efnahagsmála og launa.

Kynningin verður í formi fjarfundar sem streymt verður á vef kjaratölfræðinefndar, www.ktn.is. Edda Rós Karlsdóttir, formaður nefndarinnar, kynnir skýrsluna og gerir grein fyrir helstu atriðum hennar og niðurstöðum. Meðal nýjunga í skýrslunni er að breytingar grunntímakaups eru birtar eftir áhrifum vinnutímabreytinga og annarra launabreytinga og greining á launaþróun Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á almennum markaði skipt í þrennt, eftir Landssambandi íslenskra verslunarmanna, Starfsgreinasambandinu og iðnfélögum. Tekið verður við fyrirspurnum á ktn@ktn.is á meðan á fundinum stendur. Fundarstjórn verður í höndum Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara.

Kjaratölfræðinefnd er samstarfsvettvangur um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag en í nefndinni sitja fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga auk fulltrúa forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Hagstofu Íslands. Haustskýrslan er þriðja skýrsla nefndarinnar en gert er ráð fyrir að út komi tvær skýrslu á ári, vor og haust.

Skýrslan og tölfræðigögn eru aðgengileg á vef kjaratölfræðinefndar, www.ktn.is.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.