[12.12.2017] Vinsamlegast athugið að þessi fréttatilkynning hefur breyst frá upprunalegri útgáfu.
Ný fréttatilkynning hefur verið gefin út í staðinn.
Litlar breytingar urðu á dreifingu ráðstöfunartekna á milli áranna 2014 og 2015 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar (tekjuárin 2013 og 2014). Gini-stuðullinn hækkaði lítillega á milli ára, úr 22,7 í 23,6. Þessi breyting er þó vel innan vikmarka og því ekki hægt að draga þá ályktun að ójöfnuður hafi aukist á milli ára.
Lágtekjuhlutfallið, þ.e. hlutfall þeirra sem eru með minna en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna, mældist hærra árið 2015 en 2014. Lágtekjuhlutfallið hefur verið nokkuð breytilegt á milli ára frá árinu 2011, þ.e. farið niður fyrir 8 prósent annað hvert ár en upp fyrir 9 prósent hin árin. Þessar sveiflur eru þó ekki tölfræðilega marktækar frá ári til árs.
Samhliða útgáfu Gini-stuðulsins og lágtekjumarkanna hefur Hagstofan aukið verulega það magn tekjuupplýsinga sem hún birtir úr lífskjararannsókninni. Í talnaefninu sem fylgir þessari frétt má þannig finna upplýsingar um miðgildi ráðstöfunartekna og lágtekjuhlutfall eftir ýmsum bakgrunnsþáttum svo sem kyni, menntun, búsetu, heilsufari, húsnæðisstöðu, heimilisgerð og aldri.
Það er nokkuð skýrt samband á milli aldurs og ráðstöfunartekna á Íslandi. Tekjurnar hækka með aldri þar til fólk fer á eftirlaun. Þetta kemur fram í því að árið 2015 var fólk yfir 64 ára aldri með lægst miðgildi ráðstöfunartekna. Næst lægstar voru ráðstöfunartekjurnar á aldursbilinu 25-34 ára en hækka þar eftir með hverju aldursbili.
Ef tekjuþróun eftir aldurshópum er borin saman við þróun ráðstöfunartekna í samfélaginu í heild sinni má sjá að tvö elstu aldursbilin hafa bætt stöðu sína umfram aðra. Árið 2004 var miðgildi ráðstöfunartekna fólks á aldrinum 55-64 ára 114,9% af miðgildi ráðstöfunartekna í samfélaginu. Árið 2015 var hlutfallið komið upp í 121,3%. Á elsta aldursbilinu fór hlutfallið úr 79,5% í 89,9% yfir sama tímabil. Það er rétt að ítreka þó staða hafi batnað hjá elsta aldurshópnum umfram aðra eru ráðstöfunartekjur hópsins eftir sem áður lægri en ráðstöfunartekjur annarra aldurshópa.
Fólk á yngsta aldursbilinu, 25-34 ára, hefur dregist aftur úr, en árið 2004 nam miðgildi ráðstöfunartekna hópsins 101,9% af miðgildi ráðstöfunartekna allra íbúa Íslands en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 95,3%.
Aðferðir
Upplýsingar um tekjudreifingu eru unnar upp úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Gögnum er safnað frá febrúar og fram í maí ár hvert en tekjuupplýsingar byggja á framtalsgögnum ársins á undan. Í samræmi við vinnulag Eurostat miðast umfjöllun við árið sem gögnunum er aflað en lesendum er bent á að tekjuupplýsingar vísa til ársins á undan.