Árið 2018 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og var því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir. Munur meðaltals og miðgildis skýrist meðal annars af því að hæstu laun hækka meðaltalið en kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör án þess að kveða á um hámarkskjör. Þegar horft er á dreifingu heildarlauna var algengast að mánaðarleg heildarlaun væru á bilinu 550 til 600 þúsund krónur og var rúmlega tíundi hver fullvinnandi launamaður með heildarlaun á því bili.

Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 hjá fullvinnandi starfsmönnum. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum, þannig voru um 70% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35% ríkisstarfsmanna og tæplega 55% starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Um 5,5% starfsmanna á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna var með heildarlaun yfir 1.400 þúsund krónur á mánuði en óverulegur hluti starfsmanna sveitarfélaga var með þau laun.

Skýring: Stuðst er við evrópska þjóðhagsreikningastaðalinn ESA 2010 við ákvörðun um skiptingu vinnumarkaðarins í almennan vinnumarkað og opinbera starfsmenn. Opinberir starfsmenn teljast þeir sem vinna hjá „hinu opinbera“ (S.13). Aðrir teljast til almenns vinnumarkaðar.

Upplýsingar um laun fyrir árið 2018 ná einnig til atvinnugreinarinnar rekstur gististaða og veitingarekstur og er það í fyrsta skipti sem gerð er grein fyrir greiddum launum í þeirri atvinnugrein. Heildarlaun í atvinnugreininni voru 504 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi heildarlauna 495 þúsund krónur. Í atvinnugreininni er dreifing heildarlauna verulega frábrugðin dreifingu grunnlauna þar sem greiðslur vaktaálags eru algengar og einnig er nokkuð um yfirvinnu. Tæplega 60% fullvinnandi starfsmanna voru með grunnlaun undir 400 þúsund krónur á mánuði og tæplega 25% starfsmanna ef horft til heildarlauna. Greiddar stundir á mánuði í atvinnugreininni voru að meðaltali 183,6 sem er rétt undir meðaltali allra, en það var 184,5 greiddar stundir.

Skýring: Grunnlaun eru laun án allra aukagreiðslna. Regluleg laun eru grunnlaun auk ýmissa álagsgreiðslna, til dæmis vegna vakta. Regluleg heildarlaun eru regluleg laun auk launa vegna yfirvinnu. Heildarlaun eru það sem á undan er talið auk ýmissa óreglulegra greiðslna svo sem persónuuppbóta og kaupauka af ýmsu tagi.

Við samanburð á dreifingu heildarlauna í fimm fjölmennustu atvinnugreinunum, með tilliti til fjölda starfandi, sést að launadreifingin er mismunandi. Tæplega 85% fullvinnandi launamanna í atvinnugreininni gististöðum og veitingarekstri voru með heildarlaun undir 600 þúsund krónur á mánuði. Hins vegar var um helmingur fullvinnandi launamanna í framleiðslu, heild- og smásöluverslun og fræðslustarfsemi með heildarlaun undir 600 þúsund krónum. Í heilbrigðis- og félagsþjónustu voru um 40% með heildarlaun undir 600 þúsund krónum en tæplega 20% með yfir milljón krónur á mánuði.

Mismunandi laun og launadreifing á milli atvinnugreina má oftast rekja til ólíkra starfa og tilhögun vinnutíma. Þannig er til dæmis samsetning starfsstétta mjög mismunandi í fimm fjölmennustu atvinnugreinunum. Til dæmis eru nánast engir launamenn í störfum sérfræðinga í atvinnugreininni rekstur gististaða og veitingarekstur en tæplega 6% teljast til sérfræðinga í atvinnugreinunum framleiðslu og heild- og smásöluverslun. Til samanburðar eru um 65% launamanna sérfræðingar í fræðslustarfsemi, þar vega þyngst kennarar á öllum skólastigum, og 42% í heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar eru fjölmennastir. Að sama skapi er hlutfall verkafólks lægst í fræðslustarfsemi, eða 1% og í heilbrigðis- og félagsþjónustu 5% en hæst í framleiðslu 51% og í rekstri gististaða og veitingareksturs, eða 35%. Hins vegar er hlutfall stjórnenda áþekkt í atvinnugreinunum eða á bilinu 9 til 14%.

Nánar um niðurstöður
Hagstofan birtir samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2018 með upplýsingum um laun starfsstétta fyrir allan vinnumarkaðinn, einstakar atvinnugreinar og launþegahópa. Áður birtar niðurstöður fyrir árin 2014-2017 hafa verið endurskoðaðar. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður.

Niðurstöður byggja á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands sem ná til um 90 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn meðal launagreiðenda með 10 eða fleiri starfsmenn sem nær til um 85% af íslenskum vinnumarkaði. Nánar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni
Laun eftir launþegahópi, starfsstétt og kyni 2014-2018
Laun eftir atvinnugrein, starfsstétt og kyni 2014-2018
Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir launþegahópi, starfsstétt og kyni 2014-2018
Dreifing launa fullvinnandi launamanna eftir atvinnugrein, starfsstétt og kyni 2014-2018