FRÉTT LAUN OG TEKJUR 06. APRÍL 2009

Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 324 þúsund krónur á mánuði árið 2008. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru 355 þúsund krónur að meðaltali og regluleg heildarlaun, það er regluleg laun ásamt yfirvinnu, voru 393 þúsund krónur. Greiddar stundir fullvinnandi launamanna voru að meðaltali 44,7 stundir á viku. Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 454 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Í heildarlaunum eru regluleg heildarlaun að viðbættum ýmsum greiðslum sem ekki eru gerðar upp á hverju útborgunartímabili svo sem desemberuppbót og afkomutengdar greiðslur.

Nokkur munur er á meðaltali og miðgildi launa og er miðgildi launa í öllum tilvikum lægra en meðaltal. Meðaltal er viðkvæmt fyrir útgildum og eru fleiri útgildi til hækkunar meðaltals en lækkunar. Það má meðal annars skýra með því að kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en þeir kveða ekki á um hámarkskjör. Miðgildi er ekki jafn viðkvæmt fyrir útgildum þar sem það segir til um helmingaskipti hópsins, það er helmingur hópsins er með laun sem eru lægri en miðgildið og helmingur hópsins með laun sem eru hærri en miðgildið. Á myndinni hér að neðan má sjá meðaltal og miðgildi launa fullvinnandi launamanna á almennum vinnumarkaði 2008.

 

Regluleg laun fullvinnandi launamanna eftir starfsstéttum voru á bilinu 226 til 686 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2008. Heildarlaun voru á bilinu 325 til 902 þúsund krónur. Laun stjórnenda voru hæst bæði þegar litið er til reglulegra launa og heildarlauna. Laun verkafólks voru lægst þegar litið er til reglulegra launa en laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks voru lægst þegar litið er til heildarlauna.

Þegar laun innan atvinnugreina eru skoðuð má sjá að laun fullvinnandi launamanna voru hæst í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum. Þar voru regluleg laun 472 þúsund krónur að meðaltali og heildarlaun 654 þúsund krónur. Regluleg laun fullvinnandi launamanna voru lægst í iðnaði eða 317 þúsund krónur. Heildarlaun voru hins vegar lægst í atvinnugreininni verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 371 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.

Þessar niðurstöður eru meðal efnis í nýju hefti Hagtíðinda um laun á almennum vinnumarkaði 2008. Í heftinu má meðal annars finna ítarlega umfjöllun um laun, vinnutíma og launadreifingu eftir starfsstéttum, atvinnugreinum og kyni. Þá er einnig gerð grein fyrir samsetningu gagnasafnsins sem niðurstöðurnar byggja á.

Laun á almennum vinnumarkaði 2008 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.