FRÉTT LAUN OG TEKJUR 25. MARS 2010


Regluleg laun voru 334 þúsund krónur á mánuði árið 2009
Regluleg laun á almennum vinnumarkaði voru 334 þúsund krónur að meðaltali árið 2009. Miðgildi reglulegra launa var 282 þúsund krónur og því var helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð. Algengast var að regluleg laun væru á bilinu 175-225 þúsund krónur og var rúmlega fimmtungur launamanna með laun á því bili. Regluleg laun karla voru 360 þúsund krónur að meðaltali en regluleg laun kvenna 293 þúsund krónur. 

Heildarlaun fullvinnandi launamanna voru 432 þúsund krónur á mánuði árið 2009
Sé aðeins horft til þeirra launamanna sem teljast fullvinnandi, voru regluleg laun þeirra að meðaltali 366 þúsund krónur á mánuði árið 2009 og var miðgildi þeirra 309 þúsund krónur. Regluleg heildarlaun voru 391 þúsund krónur að meðaltali og miðgildið var 344 þúsund krónur. Heildarlaun voru 423 þúsund krónur að meðaltali og miðgildi þeirra var 373 þúsund krónur. Greiddar stundir voru að meðaltali 43,1 á viku.

 

Bilið á milli hæstu og lægstu launa minnkar
Samhliða útgáfu launa á almennum vinnumarkaði er birtur í fyrsta skipti fjórðungastuðull launa og ná niðurstöður aftur til ársins 1998. Fjórðungastuðull ber saman laun þeirra launamanna sem falla innan efsta fjórðungs og þeirra sem falla innan lægsta fjórðungs og segir til um það bil sem er á milli hæstu og lægstu launa innan hverrar starfsstéttar eða atvinnugreinar. Þegar fjórðungastuðullinn er skoðaður kemur í ljós að launamenn í hæsta fjórðungi voru með 3,2 sinnum hærri regluleg laun en launamenn í lægsta fjórðungi árið 2009. Árið 2008 var samsvarandi tala 3,4. Fjórðungastuðull heildarlauna var 2,8 árið 2009 og hafði lækkað úr 3,3 árið áður. Þessar niðurstöður benda til þess að bilið á milli hæstu og lægstu launa á almennum vinnumarkaði hafi minnkað frá fyrra ári.

Samdráttur í efnahagslífinu hefur áhrif á samsetningu vinnuafls
Áhrifa af breyttri samsetningu vinnumarkaðarins má greina í niðurstöðum launa á almennum vinnumarkaði. Þannig dregst vægi byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar saman úr 14% í 8% frá fyrra ári. Samdráttur í efnahagslífinu endurspeglast einnig í breyttri samsetningu innan einstakra atvinnugreina. Þannig fækkaði verkafólki í fyrrgreindri atvinnugrein frá því að vera 49% af vegnum heildarfjölda í greininni árið 2008 niður í 37% árið 2009. Þá jókst vægi stjórnenda á sama tíma úr 3% í 6%.

Þær niðurstöður sem hér er greint frá byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands og ná til tæplega 30 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði. Frekari umfjöllun um niðurstöðurnar má finna í nýju hefti Hagtíðinda um laun á almennum vinnumarkaði 2009. Í heftinu má meðal annars finna ítarlega umfjöllun um laun, vinnutíma og launadreifingu eftir starfsstéttum, atvinnugreinum og kyni. Þá er einnig gerð grein fyrir samsetningu gagnasafnsins sem niðurstöðurnar byggja á.

Laun á almennum vinnumarkaði 2009 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.