FRÉTT LAUN OG TEKJUR 01. NÓVEMBER 2016

Árið 2015 voru heildarlaun lægst í störfum við barnagæslu, þar með talin störf ófaglærðra við uppeldi og menntun barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum, eða 318 þúsund krónur á mánuði og í störfum afgreiðslufólks í dagvöruverslunum, 333 þúsund krónur. Hins vegar voru heildarlaun hæst í störfum forstjóra og aðalframkvæmdastjóra fyrirtækja og stofnana, rúmlega 1,5 milljónir króna á mánuði og í sérfræðistörfum við lækningar, rúmlega 1,3 milljónir króna á mánuði.

Upplýsingar um laun í 226 störfum og starfsstéttum árið 2015
Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn upplýsingar um laun í einstökum störfum fyrir launamenn á almennum vinnumarkaði og opinbera geiranum. Um er að ræða 226 störf og starfsstéttir sem byggja á launarannsókn Hagstofunnar. Meðal upplýsinga sem nú birtast eru meðallaun í einstökum störfum opinberra starfsmanna, svo sem við tollgæslu, dómarastörf, heimaþjónustu, kennslu og heilbrigðisþjónustu.

Dreifing launa er mismunandi eftir störfum
Dreifing launa var mjög misjöfn eftir störfum. Þannig voru rúmlega 80% ófaglærðra í störfum við barnagæslu (starf 5131) með mánaðarleg heildarlaun á bilinu 250-350 þúsund krónur. Dreifing launa var einnig lítil til dæmis í sérfræðistörfum við sérkennslu í leik- og grunnskólum (starf 2341) en 65% þeirra voru með heildarlaun á bilinu 450-550 þúsund krónur á mánuði. Þá var dreifing launa vélgæslufólks við málmgrýtis- og bræðsluofna (starf 8121) einnig nokkuð lítil en þar voru um 40% launamanna með heildarlaun á bilinu 550-650 þúsund og rúmlega 30% með heildarlaun á bilinu 450-550 þúsund krónur.

Ef skoðuð eru störf þar sem launadreifing var meiri má til dæmis sjá að um 20% launamanna, sem sinntu sérfræðistörfum í viðskiptagreinum (starf 2419), sem eru bæði opinberir starfsmenn og launamenn á almennum vinnumarkaði hjá ólíkum fyrirtækjum og stofnunum, voru með heildarlaun á bilinu 550-650 þúsund og önnur 20% voru með laun á bilinu 650-750 þúsund krónur á mánuði árið 2015. Laun lækna (starf 2221) voru einnig mjög dreifð, en helmingur þeirra dreifðist jafnt á launabilin 750 þúsund til 1.350 þúsund. Í þessum hópi er bæði að finna almenna lækna og sérfræðilækna og skýrir það launadreifinguna að einhverju leyti.

Skýring: Sérfræðistörf við lækningar (2221), sérfræðistörf við sérkennslu (2341), sérfræðistörf í viðskiptagreinum (2419), störf við barnagæslu (5131), störf vélgæslufólks við málmgrýtis- og bræðsluofna (8121).

Samsetning launa er ólík eftir störfum
Samsetning launa var í mörgum tilvikum misjöfn. Þannig má sjá að grunnlaun voru um 90% heildarlauna hjá leikskólakennurum (starf 2332), þeim sem stunda sérhæfð störf tengd sölu og ráðgjöf (starf 3419) og grunnskólakennurum (starf 2331). Hins vegar voru grunnlaun undir 50% heildarlauna þeirra sem starfa sem stjórnendur krana og lyftitækja (starf 8333), lögreglumanna (starf 5162) og bílstjóra vöru- og flutningabíla (starf 8324).

Ýmsar reglulegar greiðslur sem gerðar eru upp mánaðarlega, svo sem vaktaálag, álags- og bónusgreiðslur, voru tæplega 22% heildarlauna stjórnenda krana og lyftitækja, 19% heildarlauna lögreglumanna og 16% heildarlauna bílstjóra vöru- og flutningabíla. Þessar greiðslur voru rúmlega 3% heildarlauna þeirra sem sinna sérhæfðum störfum tengdum sölu og ráðgjöf en í kennarastéttunum tveimur voru þessar greiðslur hverfandi. Tilfallandi yfirvinna vóg einnig þungt í þeim störfum þar sem grunnlaun voru aðeins helmingur heildarlauna, þannig voru greiðslur vegna yfirvinnu rúmlega 25% heildarlauna bílstjóra vöru- og flutningabíla, rúmlega 22% hjá stjórnendum krana og lyftitækja og rúmlega 17% hjá lögreglumönnum. Hjá grunnskólakennurum voru 6% heildarlauna vegna yfirvinnu. Hjá leikskólakennurum og í sérhæfðum störfum tengdum sölu og ráðgjöf var vægi yfirvinnunnar um 1%. Þá var vægi óreglulegra greiðslna misjafnt en þá er átt við orlofs- og persónuuppbót og aðrar óreglulegar greiðslur af ýmsu tagi. Þannig voru tæplega 15% heildarlauna lögreglumanna tilkomin vegna óreglulegra greiðslna en hjá öðrum var vægi þeirra á bilinu 4-10% - lægst hjá grunnskólakennurum og hæst hjá stjórnendum vöru- og flutningabíla.

Skýring: Kennsla á leikskólastigi (2332), sérhæfð störf tengd sölu og ráðgjöf (3419), kennsla á grunnskólastigi (2331), bílstjórar vöru- og flutningabifreiða (8324), störf við löggæslu (5162), stjórnendur krana og lyftitækja (8333).

Nánar um niðurstöður
Störf eru flokkuð eftir starfaflokkunarkerfinu Ístarf95. Upplýsingarnar ná til ársins 2015 en ætlunin er að birta sambærilegar upplýsingar aftur til ársins 2008 á næstu misserum. Áður birt talnaefni um laun eftir störfum hefur verið fært í flokkinn eldra efni til aðgreiningar. Við samanburð við eldra talnaefni er rétt að hafa í huga að aðferðir og gögn hafa verið bætt. Þá náðu eldri gögn um störf eingöngu til starfsfólks á almennum vinnumarkaði en nú ná gögn einnig til opinberra starfsmanna. Því er ekki í öllum tilvikum hægt að bera saman breytingar á milli tafla þar sem samsetning launamanna í einstökum störfum getur hafa breyst.

Niðurstöður byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn og því eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Launarannsóknin nær til 80% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar. Þá er einnig gerður fyrirvari við atvinnugreinina upplýsingar og fjarskipti en þar vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Auk þess takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn í atvinnugreinunum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður. Nánari upplýsingar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.