FRÉTT LAUN OG TEKJUR 25. JANÚAR 2021

Miðgildi tímakaups í Evrópu í október 2018 var hæst í Danmörku, hvort sem litið er til tímakaups í evrum eða jafnvirðisgildum, en lægst í Albaníu. Ísland var með þriðja hæsta miðgildi tímakaups ef tímakaupið er umreiknað í evrur en áttunda hæsta að teknu tilliti til verðlags með jafnvirðisgildum. Jafnvirðisgildi (PPS) er tilbúinn gjaldmiðill þar sem hugmyndin er að ein eining geti keypt sama magn af vörum og þjónustu í hverju landi fyrir sig og tekur þannig mið af verðlagi hvers lands.

Skýring: Starfsfólk í atvinnugreininni opinber stjórnsýsla; almannatryggingar (O) skv. ÍSAT2008 flokkunarkerfinu er ekki með í samanburðinum þar sem ekki er skylda að skila gögnum í þeirri atvinnugrein í rannsóknina.

Tímakaup byggir á sambærilegu launahugtaki og regluleg heildarlaun í útgáfum Hagstofu Íslands, það er laun í dagvinnu, vaktavinnu og yfirvinnu og er deilitalan allar greiddar stundir.

Þessar niðurstöður byggja á samevrópskri rannsókn á launum og samsetningu þeirra, Structure of Earnings Survey (SES,) sem er gerð á fjögurra ára fresti. Rannsóknin var síðast gerð 2018 þar sem október var viðmiðunarmánuður og voru niðurstöður birtar á vef Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, ásamt umfjöllun þann 14. desember síðastliðinn.

Eurostat birti einnig hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum sem eru skilgreind sem tímakaup undir 2/3 af miðgildi tímakaups viðkomandi lands. Því eru láglaunamörk mismunandi á milli landa. Lægst var hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum í Svíþjóð, eða 3,6%, en hæst 23,5% í Lettlandi. Hlutfall þeirra sem voru með tímakaup undir láglaunamörkum var 11,2% á Íslandi, sem var áttunda lægsta hlutfallið í Evrópu, en Norðurlöndin voru öll með lægra hlutfall en Ísland.

Skýring: Starfsfólk í atvinnugreininni opinber stjórnsýsla; almannatryggingar (O) skv. ÍSAT2008 flokkunarkerfinu er ekki með í samanburðinum þar sem ekki er skylda að skila gögnum í þeirri atvinnugrein í rannsóknina.

Gögn og nánari umfjöllun um rannsóknina má finna á vef Eurostat.

Talnaefni á vef Eurostat

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.