Þegar horft er til fimm fjölmennustu starfa árið 2018 sést að dreifing og samsetning launa er mismunandi. Um 75% ófaglærðra sem starfa við umönnun barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum (starf 5131) voru með grunnlaun undir 350 þúsund krónum á mánuði árið 2018 en um 40% með heildarlaun undir þeirri upphæð. Hlutfall yfirvinnu af heildarlaunum var 4% en tæplega 5% voru vegna ýmissa annarra greiðslna, svo sem orlofs- og desemberuppbóta. Laun í þessu starfi eru jafnframt þau lægstu í launarannsókn Hagstofunnar árið 2018 en heildarlaunin voru 375 þúsund krónur að meðaltali á mánuði. Launafólk við umönnun barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum starfar nær eingöngu hjá hinu opinbera.

Laun eru almennt samsett úr nokkrum launaþáttum, sem eru gerð upp á hverju útborgunartímabili, þar með talið grunnlaun, vaktaálag, vinna utan dagvinnutíma (eftirvinna), álagsgreiðslur og yfirvinna auk annarra greiðslna sem eru ekki gerðar upp á hverju útborgunartímabili, svo sem orlofs- og desemberuppbóta. Þessir launaþættir hafa mismikið vægi í launum mismunandi starfa. Þannig voru rúmlega 55% starfsfólks í störfum ræstingafólks og við aðstoð í mötuneytum (starf 9132) með grunnlaun undir 300 þúsund krónum. Heildarlaun í því starfi voru mun dreifðari en grunnlaunin sem skýrist af því að vaktaálag og aðrar greiðslur en yfirvinna voru um 19% heildarlauna auk þess sem yfirvinna var rúmlega 9%. Launafólk í þessu starfi vinnur bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera.

Dreifing grunnlauna í fjölmennustu störfum árið 2018 Dreifing heildarlauna í fjölmennustu störfum árið 2018 Skýring: Kennsla á grunnskólastigi (2331), sérfræðistörf í viðskiptagreinum (2419), störf við barnagæslu (5131), afgreiðslustörf í dagvöruverslunum (5221), störf ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum (9132).

Launadreifing var mun meiri hjá sérfræðingum í viðskiptagreinum (starf 2419) en í öðrum störfum sem hér er fjallað um. Þannig dreifðust bæði grunnlaun og heildarlaun nokkuð jafnt yfir launastigann. Fastlaunasamningar eru algengir í þessu starfi en í því felst að laun eru ekki sundurgreind eftir launaþáttum heldur eru greidd föst mánaðarlaun óháð vinnutíma og vinnutilhögun. Slíkir samningar eru einkum algengir í störfum stjórnenda og sérfræðinga. Starfið er algengt bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera.

Dreifing launa í kennslu á grunnskólastigi (starf 2331) var frekar lítil og á það bæði við um grunnlaun og heildarlaun. Um 45% launafólks var með grunnlaun á bilinu 500-550 þúsund krónur og 55% með heildarlaun á bilinu 550-650 þúsund krónur. Aðrar greiðslur en grunn- og yfirvinnulaun hafa frekar lítið vægi í starfinu og var vægi yfirvinnu og annarra reglulegra og óreglulegra greiðslna samtals 12% af heildarlaunum. Starfsfólk við kennslu á grunnskólastigi starfar nær eingöngu hjá hinu opinbera.

Á hinn bóginn var dreifing grunnlauna í afgreiðslustörfum í dagvöruverslunum (starf 5221) frekar jöfn og voru rúmlega 85% í því starfi með grunnlaun undir 550 þúsund krónum. Þegar heildarlaunin eru skoðuð sést að þau dreifast öðruvísi og voru tæplega 55% með laun á bilinu 400-550 þúsund krónur. Langflestir í þessu starfi starfa á almennum vinnumarkaði.

Nánar um niðurstöður
Störf eru flokkuð eftir starfaflokkunarkerfinu Ístarf95. Hagstofan birtir samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2018 með upplýsingum um laun í um það bil 200 störfum. Áður birtar niðurstöður fyrir árin 2014-2017 hafa verið endurskoðaðar. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður.

Niðurstöður byggja á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands sem ná til um 90 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn meðal launagreiðenda með 10 eða fleiri starfsmenn sem nær til um 85% af íslenskum vinnumarkaði. Nánar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni
Laun fullvinnandi launamanna eftir starfi og kyni 2014-2018