FRÉTT LAUN OG TEKJUR 28. APRÍL 2025

Launakostnaður á unna stund var að meðaltali 7.980 krónur á Íslandi árið 2024. Mestur var launakostnaðurinn 10.998 krónur í fjármála- og vátryggingastarfsemi en minnstur 5.956 krónur í rekstri gististaða og veitingarekstri.

Til launakostnaðar teljast ekki aðeins greidd laun til starfsfólks heldur einnig annar launatengdur kostnaður sem launagreiðendur inna af hendi. Til að mynda tryggingagjald, mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði, greiðslur vegna orlofs og veikinda og greiðslur í hina ýmsu sjóði tengda stéttarfélögum.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa var 20,8% árið 2024. Frá árinu 2018 hefur hlutfallið verið á bilinu 20,4% til 20,8% og því um litlar breytingar að ræða síðastliðin ár.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa hefur einnig breyst lítið á milli ára innan einstakra atvinnugreina en hlutfallið er nokkuð breytilegt á milli atvinnugreina. Lægst var hlutfallið 18,7% í fasteignaviðskiptum og 18,9% í rekstri gististaða og veitingastaða. Hæst var það 23,1% í heilbrigðis- og félagsþjónustu og 22,7% í fræðslustarfsemi.

Um gögnin
Launakostnaður á unna stund (Hourly labour cost) byggir á rannsókn um launakostnað (Labour Cost Survey) sem gefin er út á fjögurra ára fresti og er ætlað að vera tímanleg vísbending um launakostnað þau ár sem rannsóknin nær ekki til. Upplýsingar um þróun og samsetningu launakostnaðar á Íslandi eftir atvinnugreinum eru samanburðarhæfar við upplýsingar um launakostnað í öðrum Evrópulöndum. Finna má upplýsingar um launakostnað í Evrópulöndum á vefsíðu Eurostat.

Launakostnaður er summa allra greiddra launa og launtengdra gjalda, kostnaðar vegna starfsmenntunar, annars kostnaðar sem vinnuveitendur greiða og starfstengdra skatta. Unnar stundir eru fengnar með fjölþættu tölfræðilegu mati og byggja á gögnum Hagstofunnar. Þá einna helst launarannsókn Hagstofunnar og staðgreiðsluskyldum launagreiðslum samkvæmt stjórnsýslugögnum.

Hafa verður í huga að þegar launafólk er með fastlaunasamning, sem algengt er hjá stjórnendum og sérfræðingum, geta unnar stundir verið vanmetnar þar sem ekki er haldið sérstaklega utan um yfirvinnutíma í launakerfum í þessum tilfellum. Vinnustundir geta líka verið ofmetnar, til dæmis þegar launauppbót er greidd í formi fastra yfirvinnutíma án þess að þessir tímar séu unnir.

Niðurstöður í þessari frétt byggja á bráðabirgðatölum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.