FRÉTT LAUN OG TEKJUR 21. JANÚAR 2025

Launamunur karla og kvenna dróst saman á milli áranna 2019 og 2023 og á það jafnt við um mun á atvinnutekjum, óleiðréttan og leiðréttan launamun. Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem til er staðar.

Árið 2023 mældist leiðréttur launamunur karla og kvenna 3,6% en var 4,4% árið 2019. Ef tekið er mið af óleiðréttum launamun var munurinn 9,3% árið 2023 þegar litið er til tímakaups reglulegra heildarlauna en 13,9% árið 2019. Þegar litið er til tímakaups reglulegra launa var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 7,4% árið 2023 en mældist 12,5% árið 2019. Að lokum má nefna að munur á atvinnutekjum mældist 21,9% árið 2023 og hafði minnkað úr 25,5% árið 2019.

Hagstofa Íslands hefur gefið út greinargerð, Launamunur karla og kvenna, sem byggir á rannsókn um launamun karla og kvenna. Rannsóknin er unnin í samvinnu við ráðuneyti sem fer með jafnréttismál (upphaflega forsætisráðuneyti en frá 1. september 2024 félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) á grundvelli samstarfssamnings við ráðuneytið. Í greinargerðinni er farið yfir þróun launamunar miðað við ólíka mælikvarða sem notaðir eru við útreikning á launamun karla og kvenna auk þess sem ljósi er varpað á það hvaða þættir liggja að baki launamunar kynjanna.

Um gögnin
Munur á atvinnutekjum karla og kvenna er einfaldur mælikvarði á launamun karla og kvenna sem felur í sér samanburð á atvinnutekjum. Miðað er við tekjur einstaklinga vegna atvinnu á vinnualdri samkvæmt framtölum (18-66 ára). Ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma, starfs, atvinnugreinar og menntunarstigs. Þessi mælikvarði sýnir mun á atvinnutekjum karla og kvenna sem hlutfall af launum karla.

Óleiðréttur launamunur karla og kvenna er samanburður á meðaltímakaupi karla og kvenna byggt á launagögnum Hagstofunnar. Óleiðréttur launamunur tekur því tillit til vinnutíma. Ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt mishá laun, svo sem starf, atvinnugrein og menntunarstig. Hlutfallið sýnir mun á tímakaupi karla og kvenna sem hlutfall af launum karla. Óleiðréttur launamunur er reiknaður bæði fyrir tímakaup reglulegra launa og tímakaup reglulegra heildarlauna. Til reglulegra launa teljast grunnlaun og hvers kyns álags- og bónusgreiðslur sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Til reglulegra heildarlauna teljast regluleg laun auk yfirvinnulauna.

Leiðréttur launamunur karla og kvenna metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti (að meðaltali) fái sambærileg laun. Líkön, þar sem tekið er tillit til viðeigandi þátta (skýribreyta), svo sem starfs, atvinnugreinar og menntunarstigs, eru notuð til þess að einangra þau áhrif sem kyn hefur á regluleg laun. Greiningin er byggð á launa-, lýðfræði- og menntunargögnum Hagstofunnar. Leiðréttur launamunur er reiknaður með tímakaupi reglulegra launa.

Launamunur karla og kvenna — greinargerð

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.