Launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár og á það jafnt við um atvinnutekjur og óleiðréttan og leiðréttan launamun. Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin.

Konur voru að jafnaði með 4,3% lægri laun en karlar árið 2019 í stað 6,2% árið 2010 sé tekið mið af leiðréttum launamun. Óleiðréttur launamunur var 17,5% árið 2010 en 13,9% árið 2019. Ef horft er til atvinnutekna, þar sem ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma og starfs, voru konur að jafnaði með 32,9% lægri atvinnutekjur en karlar árið 2010 en 25,5% árið 2019.

Árið 2020 hafði munurinn dregist enn meira saman en rétt er að setja fyrirvara við niðurstöður ársins 2020 vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins á íslenskan vinnumarkað. Árið 2020 var leiðréttur launamunur 4,1% og óleiðréttur launamunur að jafnaði 12,6% en munur á atvinnutekjum karla og kvenna var 23,5%.

Þróun á launamun karla og kvenna

Hagstofa Íslands gefur út tvær greinargerðir sem byggja á rannsókn á launamun á milli karla og kvenna. Rannsóknin er unnin í samvinnu við forsætisráðuneytið á grundvelli samstarfssamnings þar sem lögð var áhersla á þróun tölfræðilegra aðferða við mat á leiðréttum launamun. Greinargerðin Icelandic gender pay gap analysis 2008-2020 fjallar um aðferðir og niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar. Greinargerðin Launamunur karla og kvenna fjallar um launamun í stærra samhengi, varpar ljósi á fjölbreyttar skilgreiningar, dregur saman helstu niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar og gerir grein fyrir því sem liggur að baki mælinga á launamun á milli karla og kvenna.

Skýringar
Leiðréttur launamunur metur hvort karlar og konur með sömu eiginleika eða þætti (að meðaltali) fái sambærileg laun. Í því mati eru notuð launalíkön til þess að einangra þau áhrif sem kyn hefur á regluleg laun. Tekið er tillit til viðeigandi þátta (skýribreyta) svo sem starfs, atvinnugreinar og menntunarstigs. Matið er byggt á launa-, lýðfræði- og menntunargögnum Hagstofunnar.

Samanburður á meðaltímakaupi karla og kvenna (regluleg laun og yfirvinnulaun deilt með greiddum stundum) byggt á launagögnum Hagstofunnar sýnir óleiðréttan launamun. Óleiðréttur launamunur tekur því tillit til vinnutíma. Karlar vinna að meðaltali lengri vinnutíma en konur og skiptir þá miklu að þeir hafa hlutfallslega fleiri yfirvinnustundir sem venjulega eru dýrari. Ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt mishá laun, svo sem starf, atvinnugrein og menntunarstig.

Einfaldur mælikvarði á launamuni karla og kvenna felur í sér samanburð á atvinnutekjum. Miðað er við atvinnutekjur einstaklinga á vinnualdri (18-66 ára) samkvæmt framtölum. Ekki er tekið tillit til áhrifaþátta sem geta skýrt misháar tekjur svo sem vinnutíma, starfs, atvinnugreinar og menntunarstigs.

Launamunur karla og kvenna - Greinargerð

Rannsókn á launamun karla og kvenna 2008-2020 gefin út 8. apríl 2022, þýðing á greinargerðinni Icelandic gender pay gap analysis 2008-2020